Erlent

Rússar endurnýja kröfu sína um yfirráð á Norðurpólnum

Atli Ísleifsson skrifar
Málefni norðurslóða hafa verið mikið í deiglunni síðustu ár, þar sem bráðnun hafíss hefur auðveldað aðgengi að þeim olíu- og gasauðlindum sem þar finnast.
Málefni norðurslóða hafa verið mikið í deiglunni síðustu ár, þar sem bráðnun hafíss hefur auðveldað aðgengi að þeim olíu- og gasauðlindum sem þar finnast. Vísir/AFP
Rússnesk stjórnvöld hafa sent nefnd Sameinuðu þjóðanna um endimörk landgrunnsins nýja greinargerð þar sem þau ítreka kröfu sína um að landgrunn Rússlands nái yfir Norðurpólinn.

Barents Observer greinir frá því að eftir margra ára rannsóknir hafi Rússar sent greinargerðina til nefndarinnar í síðustu viku. Rússar sendu fyrstu greinargerð sína árið 2001, en fór nefndin fram á að frekari gagna yrði aflað.

Kröfur rússneskra stjórnvalda ná meðal annars yfir Mendeljev- og Lomonosov-hrygginn í Norður-Íshafi. Er það nú undir nefnd Sameinuðu þjóðanna komið hvort Rússar eigi rétt til að stækka lögsögu sína.

Kanadamenn og Danir hafa einnig sent inn greinargerðir sínar þar sem þeir gera kröfu um svæðið í kringum Norðurpólinn.

Málefni norðurslóða hafa verið mikið í deiglunni síðustu ár, þar sem bráðnun hafíss hefur auðveldað aðgengi að þeim olíu- og gasauðlindum sem þar finnast. Þá hefur bráðnun íss einnig opnað möguleika á nýjum siglingaleiðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×