Fótbolti

Rúrik náði ekki að bjarga málunum og Nürnberg tapaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúrik Gíslason er með samning til ársins 2018.
Rúrik Gíslason er með samning til ársins 2018. Vísir/Getty
Rúrik Gíslason og félagar í þýska liðinu Nürnberg spila áfram í þýsku b-deildinni eftir tap á heimavelli á móti Eintracht Frankfurt í kvöld í seinni umspilsleik liðanna um laust sæti í Bundesligunni.

Nürnberg náði 1-1 jafntefli í fyrri leiknum á heimavelli Eintracht Frankfurt og var því í góðum málum fyrir seinni leikinn á sínum heimavelli.

Eintracht Frankfurt endaði í þriðja neðsta sætinu í Bundesligunni en 1. FC Nürnberg í þriðja efsta sæti b-deildarinnar.

Svissneski landsliðsmaðurinn Haris Seferović var hetja síns liðs í leiknum en hann skoraði eina markið á 66. mínútu.

Rúrik Gíslason byrjaði á varamannabekknum en kom inná í tvöfaldri skiptingu átta mínútum eftir markið. Rúrik spilaði því síðustu sextán mínúturnar í kvöld. Hann fékk aðeins að spila eina mínútu í fyrri leiknum.

1. FC Nürnberg liðið eins og það heitir fullu nafni hefur spilað í b-deildinni undanfarin tvö tímabil og nú er ljóst að liðið þarf að eyða þar einu tímabili í viðbót.

Rúrik Gíslason var ekki valinn í EM-hópinn á dögunum og er því kominn í sumarfrí. Hann missti mikið úr í vetur vegna meiðsla á hásin.

Þetta var fyrsta tímabil Rúriks með Nürnberg-liðinu en hann er með samning út næstu tvö tímabil eða til ársins 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×