Fótbolti

Rúrik með brotið bein í baki

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Rúrik í baráttunni við Isco í leik FCK og Real Madrid í fyrra.
Rúrik í baráttunni við Isco í leik FCK og Real Madrid í fyrra. Vísir/Getty
Rúrik Gíslason, leikmaður FC Kaupmannahafnar og íslenska landsliðsins í knattspyrnu, er með brotið bein í bakinu og verður frá keppni af þeim sökum næstu vikur eða mánuði. Þetta staðfesti hann við Víði Sigurðsson á mbl.is í dag

Rúrik fékk högg á bakið í leik gegn Silkeborg í fyrstu umferð dönsku úrvalsdeildarinnar um síðustu helgi. Í fyrstu var ekki talið að meiðslin væru alvarleg en Rúrik fór í myndatöku í dag vegna blæðingar í vöðva.

„Læknirinn sendi mig þá í röngtenmyndatöku og þá kom í ljós að beinið væri brotið. Ég veit ákaflega lítið um þetta ennþá, annað en það að beinið situr rétt og það er útlit fyrir að ég þurfi ekki að fara í aðgerð. Ég vona allavega að það gangi eftir," sagði Rúrik en hann verður frá næstu mánuðina og ólíklegt er að hann nái landsleik Íslands og Tyrklands í undankeppni Evrópumótsins á Laugardalsvellinum í byrjun september.

„Þetta verða væntanlega einhverjar vikur en það er ómögulegt að segja eitthvað um það í dag. Ég verð bara að taka þessu eins og maður og fara eftir því sem mér er sagt," sagði Rúrik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×