Íslenski boltinn

Rúnar tekur við liði Lilleström - Bjarni eftirmaður hans hjá KR?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Kristinsson gerði KR að bikarmeisturum í sumar.
Rúnar Kristinsson gerði KR að bikarmeisturum í sumar. Vísir/Andri Marinó
Rúnar Kristinsson sem hefur þjálfað lið KR með mjög góðum árangri verður næsti þjálfari norska úrvalsdeildarliðsins Lilleström samkvæmt heimildum íþróttadeildar 365.

Fátt getur komið í veg fyrir að Rúnar Kristinsson verði ráðinn þjálfari Lilleström og samkvæmt áreiðanlegum heimildum frá Noregi verður Rúnar næsti þjálfari norska liðsins. Pétur Pétursson sem hefur verið aðstoðarmaður Rúnars hjá KR er sagður fylgja með í kaupunum.  Guðjón Guðmundsson fjallaði um framtíð Rúnars í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Lilleström er á höttunum eftir nýjum þjálfara þar sem að Magnus Haglund, núverandi þjálfari liðsins, hefur tilkynnt að hann sé að hætta með liðið en Haglund er sterklega orðaður við sænska liðið Elfsborg.

Norskir fjölmiðlar hafa ekkert fengið staðfest frá Lilleström varðandi ráðningu á nýjum þjálfara en forráðamenn liðsins eru rólegir, væntanlega vegna þess að málið er frágengið.

Fleiri félög í Noregi, Svíþjóð og Danmörku hafa borið víurnar í Rúnar, en þar hefur Lilleström vinninginn.

Lilleström er í fimmta sæti í norsku úrvalsdeildinni þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir en liðið á enn veika von á því að tryggja sig inn á topp fjögur og þar með þátttökurétt í Evrópukeppninni á næsta ári.

KR-ingar munu í þessari viku tilkynna hver muni taka við af Rúnari og verða næsti þjálfari félagsins. Bjarni Guðjónsson, fyrrum fyrirliði liðsins, er þar efstur á blaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×