Fótbolti

Rúnar Páll: Kemur í ljós hvernig leikurinn þróast

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stjörnumenn hafa haft ástæðu til að fagna í sumar.
Stjörnumenn hafa haft ástæðu til að fagna í sumar. vísir/Daníel
Klukkan 21:00 í kvöld verður flautað til leiks í leik Stjörnunnar og Inter frá Mílanó í 4. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar.

Gengi Stjörnunnar í Evrópudeildinni í sumar hefur verið lyginni líkast, en Garðabæjarliðið hefur nú þegar slegið út þrjá andstæðinga; Bangor City frá Wales, Motherwell frá Skotlandi og pólska liðið Lech Poznan.

Í kvöld er hins vegar komið að stærstu prófrauninni, átjánföldum Ítalíumeisturum Inter. Verkefnið er ærið, en þrátt fyrir það er þjálfari Stjörnunnar, Rúnar Páll Sigmundsson, hvergi banginn: „Stemningin í okkar röðum er mjög góð og við hlökkum mikið til,“ sagði Rúnar í samtali við Fréttablaðið eftir æfingu Stjörnumanna á Laugardalsvelli í gær.

Hann segir það hafa gengið vel að halda spennustiginu niðri hjá sínum mönnum: „Spennustigið er ágætt, en það kemur betur í ljós á morgun – hvernig við byrjum leikinn og hvernig hlutirnir þróast,“ sagði Rúna.

Hann og aðstoðarmenn hans hafa eytt drjúgum tíma í að skoða leiki Inter á myndbandi, en ítalska liðið hefur leikið fimm æfingaleiki í sumar, m.a. gegn Real Madrid og Manchester United. Þrátt fyrir að Inter sé með gríðarlega vel mannað lið og sé mun sigurstranglegri aðilinn í kvöld sér Rúnar sóknarfæri gegn ítalska stórveldinu.

„Við höfum greint Inter-liðið eftir okkar bestu getu og svo verður að koma í ljós hvernig þeir stilla liðinu upp og annað slíkt. Þeir hafa spilað með tígulmiðju og færa liðið mikið yfir þar sem boltinn er. Það skapast því pláss hinum megin á vellinum og það er gríðarlega mikilvægt að við náum að skipta boltanum á milli kanta,“ sagði Rúnar að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×