Fótbolti

Rúnar Már skoraði gegn toppliðinu | Victor skoraði í tapi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rúnar Már í leik með Sundsvall.
Rúnar Már í leik með Sundsvall. vísir/fésbókarsíða Sundsvall
Rúnar Már Sigurjónsson var á skotskónum fyrir GIF Sundsvall í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag, en Sundsvall gerði 2-2 jafntefli við Gautaborg.

Útlitið var ekki bjart fyrir Sundsvall í hálfleik. Mikael Boman kom Gautaborg yfir á fjórðu mínútu og á 26. mínútu tvöfaldaði Lasse Vibe forystuna.

Joakim Nilsson minnkaði muninn fyrir Sundsvall á 48. mínútu og Rúnar Már jafnaði svo metin fyrir Sundsvall tólf mínútum síðar. Lokatölur 2-2.

Rúnar og Jón Guðni Fjóluson spiluðu báðir allan leikinn fyrir Sundsvall, en þeir sitja í þrettánda sætinu. Hjálmar Jónsson stóð vaktina í vörn Gautaborg sem er með þriggja stiga forystu á toppnum.

Guðlaugur Victor Pálsson skoraði annað mark Helsingarborgar í 3-2 tapi gegn Håcken á útivelli í sömu deild.

Victor kom Helsingborg yfir 2-1 á 56. mínútu, en Jasmin Sudic jafnaði á 68. mínútu. Þrettán mínútum síðar skoraði Alexander Jeremejeff sigurmarkið og lokatölur 3-2 sigur Håcken.

Helsingborg er í áttunda sætinu með 18 stig, en Håcken er í sjöunda með nítján. Gunnar Heiðar Þorvaldsson var ónotaður varamaður hjá Håcken, en Victor spilaði allan leikinn fyrir Helsingborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×