Fótbolti

Rúnar Már með stoðsendingu og þrjú stig í fyrsta deildarleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Már Sigurjónsson er að byrja vel í Sviss.
Rúnar Már Sigurjónsson er að byrja vel í Sviss. Vísir/EPA
Íslenski landsliðsmaðurinn Rúnar Már Sigurjónsson og félagar í Grasshopper Club byrja vel í svissnesku deildinni en liðið vann 2-0 sigur á FC Lausanne-Sport í fyrstu umferðinni í dag.

Rúnar Már Sigurjónsson var í byrjunarliðinu og lagði upp seinna mark liðsins á 64. mínútu leiksins en Grasshopper komst í 1-0 á 24. mínútu.

Brasilíumaðurinn Caio Alves skoraði bæði mörkin fyrir Grasshopper en hann var einnig á skotskónum í Evrópudeildinni á dögunum á móti KR.

Grasshopper sló KR út úr Evrópudeildinni þar sem Rúnar Már skoraði bæði mörkin í 2-1 sigri. Grasshopper vann 5-4 samanlagt.

Rúnar Már hefur heldur betur byrjað vel í fyrstu leikjum sínum með Grasshopper. Rúnar Már er með tvö mörk og tvær stoðsendingar í fyrstu þremur keppnisleikjum sínum með félaginu.

Rúnar Már Sigurjónsson fékk ekki mikla hvíld eftir Evrópukeppnina í Frakklandi þar sem hann var hluti af íslenska hópnum en fékk þó ekki að koma inná.

Grasshopper keypti Rúnar Már frá sænska liðinu Sundsvall í sumar og hann er strax kominn í stórt hlutverk hjá nýja félaginu sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×