Handbolti

Rúnar: Þýðir ekki að leggjast á koddann og væla

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Rúnar á æfingu landsliðsins í dag.
Rúnar á æfingu landsliðsins í dag. vísir/hbg
„Við höfum verið að fara vel yfir leikinn og hvað við ætlum að gera. Ég held að það verði allir með sitt á hreinu er leikurinn gegn Spánverjum hefst,“ sagði stórskyttan Rúnar Kárason við Vísi á hóteli íslenska liðsins í Metz í dag.

Aron Pálmarsson er farinn heim og verður ekki með. Hvaða áhrif hefur það á liðið?

„Sjokkið er ekki risastórt því hann hefur ekkert verið með okkur. Þetta hefði verið stærra ef hann hefði verið með okkur á fullu í undirbúningnum. Þetta er það sem maður óttaðist og drulluleiðinlegt að missa hann. Það þýðir samt ekkert að leggjast á koddann og væla. Við vitum allir hvað Aron getur og við værum klárlega í betri málum með hann í liðinu. Þetta er líka tækifæri fyrir liðið að breikka. Að aðrir finni sitt stærra hlutverk og það kemur liðinu til góða síðar.“

Rúnar hefur verið lengi í landsliðinu en er nú að fara á sitt fyrsta stórmót sem aðalskytta liðsins. Hann er því með meiri ábyrgð á herðunum en áður.

„Ég er tilbúinn. Á sama tíma fyrir ári var ég að fara á mitt mesta svekkelsismót sem ég var lengi að ná mér eftir. Var ósáttur við spiltímann og traustið sem ég fékk þar. Ég er ánægður að fá stórt hlutverk og Geir hefur ekki farið leynt með það í okkar samtölum að hann vill að ég taki ábyrgð. Mér líður vel með það,“ segir Rúnar ákveðinn.

„Ég hef verið á tröppugangi á mínum ferli og er á góðum stað núna. Ég veld þessu betur með hverju árinu. Ég er orðinn 28 ára, tveggja barna faðir. Ég er ekki alveg fæddur í gær. Mér líður rosalega vel með þetta allt saman og er glaður. Það er spenna í mér fyrir verkefninu.“

Það eru ekki gerðar miklar væntingar til liðsins á HM en hvaða væntingar hefur liðið?

„Við viljum klárlega komast í 16-liða úrslit og það er ekki gott að lenda í fjórða sætinu í riðlinum. Við viljum í það minnsta ná þriðja sætinu. Spánn er fyrsti leikur og þar getur allt gerst. Við munum selja okkur dýrt og er drullusama hvað þessir gaurar heita. Við munum taka á þeim.“

Ekki missa af neinu sem gerist á HM í Frakklandi. Vísir er með öflugt fréttateymi á mótinu sem færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir

Aron verður ekki með á HM

Það varð ljóst nú rétt fyrir hádegi að besti leikmaður íslenska handboltalandsliðsins, Aron Pálmarsson, verður ekki með á HM í Frakklandi.

Bjarki: Það er ekkert að mér

Hornamaðurinn Bjarki Már Elísson tók af allan vafa um það hvort hann myndi spila gegn Spánverjum á morgun er hann ræddi við blaðamann Vísis nú seinni partinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×