Innlent

Rúmur þriðjungur makrílsins fannst í íslenskri lögsögu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Tæp 40% makrílsins fannst í íslenskri lögsögu.
Tæp 40% makrílsins fannst í íslenskri lögsögu. vísir/óskar
Rúmlega þriðjungur þess makríls sem fannst í sameiginlegum rannsóknarleiðangri Færeyinga, Íslendinga, Norðmanna og Grænlendinga mældist innan íslenskrar lögsögu. Leiðangurinn fór fram 1. júlí til 10. ágúst. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafrannsóknarstofnun.

Myndin sýnir útbreiðslu makrílsins.mynd/hafró
Fjögur skip tóku þátt í leiðangrinum, Árni Friðriksson frá Íslandi, eitt frá Færeyjum og tvö frá Noregi. Markmið leiðangursins var að kortleggja útbreiðslu og magn makríls og annara uppsjávarstofna í Norðaustur-Atlantshafi. Að auki voru ástand sjávar og átustofna skoðuð.

Heildavísistala makríls á svæðinu var metin um 7,7 milljón tonn en þar af voru 2,9 milljón tonn, eða 37,5% þess makríls sem fannst, innan íslenskrar lögsögu. Næstmest af makríl fannst innan lögsögu Norðmanna eða 27,5%. Færeyjar fylgdu í kjölfarið með rúm tíu prósent en minna fannst á öðrum svæðum.  Heildarvísitalan nú er um 1,3 milljónum tonnum lægri en í fyrra en í fyrra hafði aldrei mælst meiri makríll. Svæðið sem var til skoðunar var um 2,7 milljón ferkílómetrar en aðeins lítill hluti lögsögu ESB var kannaður.

Niðurstöður leiðangursins sýna enn og aftur víðáttumikla útbreiðslu makrílsins að sumarlagi. Það er þó ljóst að ekki náðist að dekka allt útbreiðslusvæði hans og þá sérstaklega suðaustur af yfirferðarsvæðinu í kringum Bretlandseyjar og í Norðursjó þar sem einkum yngri fiskur er talinn halda til á þessum árstíma. Útbreiðsla makríls var eins og áður sagði frábrugðin síðustu árum sem bendir til breytinga á farleiðum hans. Þær tengjast mögulega kaldari yfirborðssjó í vor suðaustur af Íslandi sem náði allt að ströndum Noregs.

Skipting makrílsins eftir lögsögum.mynd/hafró

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×