Sport

Rúmlega milljón manns vill sjá svanasöng Bolts og Mo Farah

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Usain Bolt og Mo Farah kveðja í Lundúnum.
Usain Bolt og Mo Farah kveðja í Lundúnum. vísir/getty
Ríflega ein milljón umsókna um miða á heimsmeistaramótið í frjálsíþróttum hafa borist inn á borð mótshaldara en það fer fram í Lundúnum á næsta ári. Um 700.000 miðar eru í boði. BBC greinir frá.

Aðsóknin er talin svo mikil vegna þess að þetta verður síðasta frjálsíþróttamót Usain Bolts og breska langhlauparans Mo Farah. Bolt er níufaldur Ólympíumeistari og Farah hefur unnið 5.000 og 10.000 metra hlaupið á síðustu tvennum Ólympíuleikum.

Báðir hafa gefið það út að þeir leggi skóna á hilluna eftir HM í Lundúnum. Bolt ætlar að segja alveg skilið við frjálsar en Fara ætlar að einbeita sér að maraþonhlaupi.

Mótshaldarar segja að 1.047.000 miðaumsóknir hafa borist. Nú þegar er eftirspurnin eftir miðum á fimm af kvöldunum fjórtán orðin of mikil. Eitt af kvöldunum sem er eftirsóttast er þegar 100 metra hlaup karla fer fram en ríflega 200.000 manns hafa sótt um miða á það kvöld þar sem Bolt hleypur 100 metrana í síðasta sinn.

HM fer fram á Ólympíuvellinum í Lundúnum sem er í dag heimavöllur enska úrvalsdeildarliðsins West Ham. Hann tekur um 50.000 manns í sæti en það verður um það bil fjöldinn sem fær að fylgjast með hverju kvöldi á mótinu á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×