Innlent

Rúmlega 700 skjálftar frá miðnætti

Atli Ísleifsson skrifar
Berggangurinn undir Dyngjujökli er nú talinn vera rúmlega 40 kílómetra langur.
Berggangurinn undir Dyngjujökli er nú talinn vera rúmlega 40 kílómetra langur. Vísir/Vilhelm
Skjálftavirkni í kringum Bárðarbungu er enn mjög mikil og hafa rúmlega 700 skjálftar mælst frá miðnætti. Virknin er nú að mestu utan jökuls og hefur þokast um einn kílómetra til norðurs frá því í gær, að því er segir í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Klukkan 00:16 mældist skjálfti af stærðinni 5,3 í Bárðarbunguöskjunni og klukkan 02:50 mældist annar stór skjálfti af stærðinni 5,2 á svipuðum slóðum. „Klukkan 01:52 mældist skjálfti af stærðinni 4,5 austantil í Öskju og hefur dálítil smáskjálftavirkni fylgt í kjölfarið.“

Berggangurinn undir Dyngjujökli er nú talinn vera rúmlega 40 kílómetra langur. Líkanreikningar byggðir á GPS mælingum benda til þess að rúmmálsaukningin síðasta sólarhringinn sé rúmlega 20 milljónir rúmmetra. Líkanreikningar benda til að berggangurinn hafi valdið verulegum spennubreytingum á stóru svæði, meðal annars til norðurs sem gæti skýrt skjálftavirkni í Öskju.

Vísindamannaráðs Almannavarna telur engar vísbendingar vera um að draga muni úr ákafa atburðanna og verður litakóði fyrir flug áfram appelsínugulur yfir Bárðarbungu.


Tengdar fréttir

Tveir skjálftar yfir fimm stigum og einn stór nærri Öskju

Meiri skjálftavirkni var á Bárðarbungusvæðinu í nótt en í fyrrinótt og mældust um 500 skjálftar frá miðnætti til klukkan sex í morgun. Þar af mældust tveir yfir fimm stig og fjölmargir skjálftar upp á tvö til þrjú stig mældust einnig.

Lengist um fjóra kílómetra á dag

Síðustu tíu daga hefur berggangurinn undir Vatnajökli lengst um fjóra kílómetra á dag, að meðaltali. Sérfræðingur segir atburðinn einn þann markverðasta sem Íslendingar hafa orðið vitni að, en stærð berggangsins sé vanmetin og stefna hans beint á Öskju allrar athygli verð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×