Bíó og sjónvarp

Rúmlega 27 þúsund sáu The Force Awakens á Íslandi í síðustu viku

Birgir Olgeirsson skrifar
Áhorfendur á frumsýningu Star Wars: The Force Awakens í sal 1 í Egilshöll.
Áhorfendur á frumsýningu Star Wars: The Force Awakens í sal 1 í Egilshöll. Vísir/Jóhanna Andrésdóttir
Sjöunda Stjörnustríðsmyndin, The Force Awakens, er á hvínandi siglingu um þessar mundir og sló tvö met á Íslandi í liðinni viku.

Myndin sló dagsmetið á Íslandi síðastliðinn fimmtudag þegar 10.300 sáu hana hér á landi. Frá fimmtudegi til sunnudags sáu 27.500 manns myndina hér á landi og hefur engin mynd dregið svo marga áhorfendur á fjórum dögum. Mikið tilstand var í kringum frumsýningu þessarar myndar. Tíu þúsund manns keyptu miða í forsölu og þá ákváðu Sambíóin að sýna hana allan sólarhringinn í Álfabakka og á Akureyri.

Sú mynd sem átti dagsmetið og fjögurra daga metið áður var þriðja myndin í þríleiknum um HobbitannThe Battle of the Five Armies, sem kom út í desember í fyrra.

Björn Ásberg Árnason, framkvæmdastjóri Sambíóanna, segir ómögulegt að segja til um hver heildaraðsóknin verði þegar upp er staðið en á allt eins von á því að The Force Awakens muni komast í flokk með Titanic og Avatar yfir aðsóknamestu myndirnar á Íslandi, en rúmlega hundrað þúsund áhorfendur sáu hvora mynd hér á landi.

James Cameron leikstýrði báðum myndum, Titanic kom út árið 1997 en Avatar árið 2009.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×