Erlent

Rúmlega 24 milljarða króna tjón

Samúel Karl Ólason skrifar
Sprengingin var mjög stór.
Sprengingin var mjög stór. Vísir/AP
Ómönnuð geimflaug sprakk við flugtak í Flórída í Bandaríkjunum í gær. Fjöldi manns fylgdist með flugtakinu út um allan heim. Þetta er fyrsta slíka slysið síðan Geimvísindastofnun Bandaríkjanna byrjaði að ráða verktaka til að ferja birgðir til alþjóðlegu geimstöðvarinnar.

Í flauginn voru rúm tvö tonn af birgðum til geimstöðvarinnar, en þær eru ekki sagðar hafa verið geimförunum lífsnauðsynlegar. Allt í allt eru skaðinn talin nema um tvö hundruð milljónum dala, eða rúmum 24 milljörðum króna.

Á hverju ári greiðir NASA fyrirtækjunum Orbital Sciences og SpaceX marga milljarða dala fyrir flutningana, eftir að geimskutlur NASA voru teknar úr notkun. AP fréttaveitan segir að þetta fyrirkomulag muni verða fyrir mikilli gagnrýni eftir slysið.

Frá Orbital Sciences hafa fengist þær upplýsingar að enginn hafi slasast og skemmdir hafi einskorðast við fasteignir og búnað á skotstað. Varaforseti fyrirtækisins, Frank Culbertson, segir að fyrsta spreningin hafi orðið um tíu til tólf sekúndum eftir flugtak. Þegar tuttugu sekúndur voru liðnar hafði flaugin hrapað aftur til jarðar þar sem gífurlega stór sprenging varð.

Þetta var í annað sinn sem reynt var skjóta flauginni á loft, en skotinu var frestað á mánudagskvöldið eftir að seglskúta hafði slæðst inn á hættusvæði við skotsvæðið. Hættusvæðið er sett upp ef slys skyldu eiga sér stað, eins og gerðist í gær.

Culbertson segir að slysið verði rannsakað til hins ítrasta og að þeir muni komast að orsökum þess. NASA og flugumferðaryfirvöld í Bandaríkjunum taka þátt í rannsókninni.

„Við munum komast að því hvað gerðist, vonandi fljótlega, og við munum halda starfi okkar áfram. Við höfum öll séð þetta gerast áður í okkar starfi og við höfum séð aðra jafna sig á þessu. Við munum gera það einnig.“

Vísir/AP
Vísir/AP

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×