Erlent

Rúmlega 1.500 manns hafa verið teknir höndum í Eþíópíu

Atli Ísleifsson skrifar
Eþíópísk stjórnvöld sögðu nauðsynlegt að lýsa yfir sex mánaða neyðarástandi til að koma á lögum og reglu í landinu.
Eþíópísk stjórnvöld sögðu nauðsynlegt að lýsa yfir sex mánaða neyðarástandi til að koma á lögum og reglu í landinu. Vísir/AFP
Lögregla í Eþíópíu hefur handtekið rúmlega 1.500 manns frá því að neyðarástandi var lýst yfir í landinu fyrr í mánuðinum. Ríkisfjölmiðillinn Fana greinir frá þessu.

Í frétt SVT um málið segir að 1.120 hafi verið teknir höndum í Oromia-héraði þar sem mótmælin gegn ríkisstjórn landsins hófust á síðasta ári. Mótmælin hafa svo dreifst um landið.

Að sögn lögreglu hefur fólkið verið handtekið fyrir „ofbeldisverk og skemmdarverk“. 302 til viðbótar hafa verið handteknir í borginni Guji í vesturhluta landsins og 110 í Kelem Wolega. Þá hefur lögregla lagt hald á mörg hundruð vopn.

Eþíópísk stjórnvöld sögðu nauðsynlegt að lýsa yfir sex mánaða neyðarástandi til að koma á lögum og reglu í landinu eftir margra mánaða mótmæli sem hafa leitt til dauða fólks og eyðilegginga fjölda bygginga.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×