Innlent

Rúmar 80 milljónir til verkefna í kjördæmi ráðherra

Höskuldur Kári Schram skrifar
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra vísir/pjetur
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra  hefur ákveðið að úthluta 132 milljónum króna úr Framkvæmdasjóði aldraðra til ellefu verkefna. Rúmlega 60 prósent af þeirri upphæð fer til verkefna í kjördæmi ráðherra eða rúmar 80 milljónir.

Hæsta framlagið, 52 milljónir, rennur til Öldrunarheimilis Akureyrar vegna endurbóta á húsnæði. Næst hæsta framlagið, 23 millljónir, rennur til Öldrunarheimilisins Dalbæjar í Dalvíkurbyggð. Þá fær Dvalarheimili aldraðra í Norðurþingi rúmar 6 milljónir. Öll eru þessi heimili í norðausturkjördæmi sem er kjördæmi Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra. Samtals fá þessi verkefni 81,7 milljónir af þeim 132 sem var úthlutað.

Úthlutun ráðherra byggir á tillögum stjórnar Framkvæmdasjóðs aldraðra en í henni sitja fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Landssambandi eldri borgara, formaður fjárlaganefndar Alþingis og fulltrúi ráðuneytis. Stjórnin leggur mat á umsóknir um framlög úr honum og gerir tillögu til ráðherra.

Alls bárust 23 umsóknir til margvíslegra verkefna úr öllum heilbrigðisumdæmum landsins utan heilbrigðisumdæmis Austurlands samkvæmt vef ráðuneytisins. Af þeim umsóknum sem var hafnað voru sex sem uppfylltu ekki skilyrði til úthlutunar samkvæmt reglugerð um Framkvæmdasjóð aldraðra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×