Skoðun

Rukkum eins og Bláa lónið

Guðmundur Edgarsson skrifar
Þrátt fyrir að líta megi á Bláa lónið sem vel heppnað viðskiptaævintýri virðist sem allmörgum blöskri hinn hái aðgangseyrir sem fyrirtækið rukkar gesti sína um. Þó er ekki um slíka upphæð að ræða að skilji á milli ríkra og venjulegs launafólks. Reynslan sýnir enda að lónið þjónar fjöldanum en ekki einungis þröngum hópi sterkefnaðra einstaklinga. Hinn hái aðgangseyrir á líka sínar jákvæðu hliðar eins og hér verður nú rakið.

Skilvirkni verðstýringar

Tilfellið er að hár aðgangseyrir í samræmi við vinsældir leiðir ekki einungis til meiri ábata fyrir seljendur heldur einnig til aukins hagræðis fyrir neytendur. Í tilfelli Bláa lónsins væri ferðamaðurinn nefnilega verr settur með miðaverðið vel undir markaðsvirði. Eftirspurn yrði þá langt umfram framboð svo keppast þyrfti um miðana við fráhrindandi aðstæður eða standa frammi fyrir illásættanlegri bið. Hærri aðgangseyrir slakar hins vegar á eftirspurninni þannig að neytandinn getur gert ráðstafanir til að tryggja sér miða til dæmis með því að hækka kaup sitt með meiri vinnu. Fyrirhyggja ferðamannsins ræður því för um hvort hann komist í lónið, ekki heppni eða krókaleiðir.

Bláa lónið og arðgreiðslur

Þar sem Bláa lónið er í einkaeigu getur það hagað verðlagningu að vild. Samtímis er hið opinbera í eilífum vandræðum með fjármögnun til varnar auknum átroðningi við ýmsar náttúruperlur í sinni eigu sökum fornrar löggjafar gegn eðlilegri gjaldtöku. Á meðan malar Bláa lónið gull sem nýtist til eflingar á aðstöðu og þjónustu auk ýmissa heilsutengdra þróunarverkefna. Samfara eykst virði fyrirtækisins, hluthöfum og ferðaþjónustunni allri til hagsbóta. Ráðamenn ættu því að líta til Bláa lónsins sem fyrirmyndar um það sem koma skyldi til uppbyggingar og verðmætaaukningar innan ferðaþjónustunnar. Arð af hagnaði mætti svo greiða út árlega beint í vasa landsmanna rétt eins og Bláa lónið greiðir hluthöfum sínum arð af ágóða fyrirtækisins ár eftir ár.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. júlí




Skoðun

Sjá meira


×