Erlent

Rukka stúlku fyrir viðgerð á vegriðinu sem varð henni að bana

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hanna Eimers var 17 ára þegar hún lést í bílslysinu í nóvember síðastliðnum.
Hanna Eimers var 17 ára þegar hún lést í bílslysinu í nóvember síðastliðnum. KNOX/Steven Eimers
Tennessee-ríki í Bandaríkjunum hefur sent aðstandendum 17 ára stúlku sem lést í bílslysi undir lok síðasta árs reikning upp á næstum 3000 dali, um 300 þúsund íslenskar krónur, vegna skemmda á vegriðinu sem varð henni að bana.

Faðir hennar segist ekki ætla að greiða reikninginn og stefnir á að fara í hart; vegriðið hafi verið illa hannað og stórhættulegt eins og sannaðist í máli dóttur hans sem vakið hefur athygli mikla athygli vestanhafs.

Slysið varð þegar stúlkan, Hanna Eimers, ók eftir hraðbraut í Tennessee þann 1. nóvember síðastliðinn. Hún missti stjórn á bílnum og hafnaði á enda vegriðsins en í stað þess að bogna undan högginu eða varpa bílnum af sér gekk vegriðið þess í stað inn í bílstjórahurðina og í Eimers sem lést samstundis.

Fjórum mánuðum síðar fékk faðir hennar, Steven Eimers, fyrrnefndan reikning upp á 2.970 dali frá samgöngustofu Tennessee-ríkis vegna vinnu og efniskostnaðar við uppsetningu nýs 8 metra vegriðs.

Reikningurinn voru mistök

„Ég er í áfalli, þvílík ósvífni,“ sagði faðir hennar í samtali við héraðsmiðilinn Knoxville News Sentinel. „Það sem angrar mig er að þau eru að spila rússneska rúllettu með líf fólks. Þau vita að vegriðin þola illa mikinn hraða eins og í máli dóttur minnar en samt halda þau áfram að nota þau.“

Talsmaður samgöngustofunnar segir að það hafi verið mistök að senda reikninginn og að starfsmenn skammist sín mikið. Unnið sé nú að því að fjarlægja þessa tegund vegriðs sem enn er í notkun í ríkinu. Steven Eimers segist ætla að sjá til þess að það verði gert með hraði.

Hér að neðan má sjá reikninginn sem Eimers fékk sendan frá samgöngustofunni.

Reikningurinn upp á næstum 3000 dali.Knox



Fleiri fréttir

Sjá meira


×