Viðskipti innlent

Rukka skuldara um dráttarvexti þrátt fyrir lagalega óvissu

Höskuldur Kári Schram skrifar
Lánafyrirtæki hika ekki við að leggja dráttarvexti á lán sem voru í skuldaskjóli þrátt fyrir að lagalegur ágreiningur ríki um málið. Umboðsmaður skuldara segir að með þessu sé fjármála- og innheimtufyrirtæki að refsa þeim skuldurum sem sóttu um aðstoð hjá embættinu.

Einstaklingar sem sóttu um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara fóru strax í svokallað greiðsluskjól á meðan embættið lagði mat á umsóknina. Það ferli gat tekið marga mánuði og á meðan máttu skuldarar ekki greiða af sínum lánum.

Gjaldagarnir hrönnuðust því upp og ef að umsókn var synjað lentu margir í því að lánið var gjaldfellt með tilheyrandi innheimtukostnaði og dráttarvöxtum.

Lagalegur ágreiningur ríkir hins vegar um það hvort lánafyrirtækjum sé yfir höfuð heimilt að leggja dráttarvexti á lán sem voru í greiðsluskjóli.

„Þetta er í raun og veru ágreiningur, lagalegur ágreiningur. Við teljum lögin um greiðsluaðlögun vera mjög skýr. Það er ekki heimilt að reikna dráttarvexti en í raun og veru hefur ekki verið úr þessu skorið,“ segir Ásta Sigrún Helgadóttir umboðsmaður skuldara. „Þetta er ekki góð staða og það er verið að refsa fólki sem að sótti sér aðstoð og fór inn í svokallað greiðsluskjól og við teljum þetta ekki vera rétta túlkun á lögunum,“ segir Ásta.

Reglunum var breytt árið 2011 þannig að fólk komst ekki í greiðsluskjól fyrr en búið var að samþykkja umsókn. Mörg hundruð manns sitja hins vegar uppi með þessa umdeildu dráttarvexti.

Ásta segir að enn hafi enginn látið reyna á málið fyrir dómstólum en embættið getur ekki höfðað mál fyrir hönd skuldara.

„Við höfum bent fólki á að leita til Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki en dómstólar skera líka úr um túlkun laga. En ekkert mál hefur farið þangað ennþá,“ segir Ásta. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×