Innlent

Röskun á flugi um Reykjavíkurflugvöll

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Úr flugturninum við Reykjavíkurflugvöll
Úr flugturninum við Reykjavíkurflugvöll Vísir/ernir
Búast má við einhverjum truflunum á flugumferð um Reykjavíkurflugvöll í dag vegna veikinda flugumferðarstjóra. Alla jafna eru tveir flugumferðarstjórar á vakt í Reykjavík en sökum yfirvinnubanns hefur ekki verið hægt að manna stöðu þess sem tilkynnti sig veikan í dag. Bannið hefur staðið frá sjötta þessa mánaðar.

Að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Isavia, er flugumferð um völlinn takmörkuð til að hægt sé að tryggja öryggi farþega.

Afleysingamaður mun tryggja að sjúkra- og neyðarflug geti farið um völlinn frá klukkan 17 í dag til 07 í fyrramálið. Þeim flugferðum á vegum Flugfélags Íslands sem fyrirhugaðar voru eftir klukkan 17 hefur verið flýtt.

Töluverð röskun hefur að sama skapi verið á flugi um Keflavíkurflugvöll að undanförnu sem rekja má beint til yfirvinnubannsins. Flug lá niðri á Keflavíkurflugvelli frá klukkan 21 á fimmtudag til sjö í gærmorgun en að sögn Guðna var fullmannað í gær og nótt. Því hafi umferð um Keflavíkurflugvöll verið með nokkuð eðlilegum hætti.



Sjá einnig: Veruleg röskun á flugi

Isavia og Samtök atvinnulífsins sigldu í strand í síðustu viku. Ríkissáttasemjari hefur boðað næsta fund 9. maí, en fyrir honum liggi ekkert sérstakt. Lögboðið sé í kjaradeilum að boðað sé til fundar á minnst hálfs mánaðar fresti. Þá hefur þjálfunarbanni sem flugumferðarstjórar boðuðu í vikunni að tæki gildi 6. maí næstkomandi verið vísað til Félagsdóms.


Tengdar fréttir

Veruleg röskun á flugi

Vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra féll áætlunarflug um Keflavíkurflugvöll niður frá níu í gærkvöldi til sjö í morgun. Vilja kjarabætur umfram SALEK.

Þjálfunarbann til Félagsdóms

Þjálfunarbannið á að hefjast þann 6. maí næstkomandi en enginn fundur í kjaradeilu flugumferðarstjóra hefur verið boðaður fyrir þann tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×