Fótbolti

Rosenborg tók 130 milljóna króna tilboði í Hólmar Örn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Íslenski landsliðsmiðvörðurinn Hólmar Örn Eyjólfsson er líklega á leið til ísraelska úrvalsdeildarliðsins Maccabi Haifa en það hefur nú gert Rosenborg, liði Hólmars, tilboð sem var samþykkt.

Verdens Gang greinir frá þessu í kvöld en þar kemur fram að Maccabi kaupir Hólmar á tíu milljónir norskra kóna eða 131 milljón íslenskra króna.

Rosenborg og Maccabi Haifa eru búin að vera í samningaviðræðum um kaupverð síðustu daga en nú er komin lending í því máli. Ísraelska liðið á því eftir að semja við Hólmar áður en allt verður klappað og klárt.

Maccabi Haifa hefur ellefu sinnum orðið ísraelskur meistari, síðast árið 2011. Það er sem stendur í þriðja sæti deildarinnar með 24 stig, tíu stigum á eftir toppliði Hapoel Beer Sheva.

Hólmar Örn kom til Rosenborg á miðju tímabili 2014 en hefur síðan þá verið einn besti miðvörðurinn í norsku úrvalsdeildinni. Hann vann norsku deildina og bikarinn undanfarin tvö tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×