Viðskipti innlent

Rósaselstorg við Keflavíkurflugvöll farið að taka á sig mynd

Atli Ísleifsson skrifar
Teikningar af Rósaselstorgi.
Teikningar af Rósaselstorgi.
Búið er að ganga frá samkomulagi við fjóra aðila um rekstur í verslunar- og þjónustukjarnanum Rósaselstorgi sem áætlað er að rísi nærri flugstöðinni í Keflavík.

Í tilkynningu segir að á meðal þeirra séu Nettó með matvöruverslun, Subway, Pizza Hut, KFC, Taco Bell og Grill 66 með veitingastaði og Olís með eldsneytissölu og þjónustu.

Um er að ræða alls 20 þúsund fermetra lóð við síðasta hringtorgið á flugstöðvarveginum og er stefnt að opnun kjarnans í lok næsta árs.

Skúli Skúlason.
Skipulagsmál taka sinn tíma

Skúli Skúlason, stjórnarformaður Kaupfélags Suðurnesja, segir að þeir sem standa að framkvæmdunum hefðu vilja vera komin af stað með framkvæmdirnar, en að skipulagsmálin taki sinn tíma og góðir hlutir gerist hægt.

„Við höfum gengið frá formlegu samstarfi við kjölfestuaðila vegna 2000 fm verslunar- og þjónustuhússins, þ.e. matvöruhluta þess, eldsneytissölu og 5 veitingaaðila í matartorgið. Þessir aðilar munu á næstu vikum ljúka þátttöku í endanlegri hönnun sinna rýma en þar eru nokkrar hugmyndir á teikniborðinu. Ýmsir fleiri aðilar hafa sýnt staðsetningunni áhuga og við munum vinna áfram með sveitarfélaginu Garði að uppbyggingu svæðisins,“ segir Skúli.

Magnús Stefánsson.
Fullur vilji

Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Garði, segist fagna miklum áhuga fyrirtækja á að hefja starfsemi á þessum stað.

„Það er fullur vilji hjá bæjarstjórninni í Garði að uppbygging Rósaselstorgsins gangi sem hraðast. Við erum núna að hnýta nokkra lausa enda varðandi skipulag og vegagerð. Þetta er mjög verðmætt svæði til lengri tíma litið og við hjá Garði, Sandgerði og Reykjanesbæ fáum margar fyrirspurnir vegna lóða í grennd við Keflavíkurflugvöll. Það er mikil þensla í flugstöðinni og allt í kringum hana. Við sjáum að mannaflaþörfin vex stöðugt og að atvinnuleysi á svæðinu er nánast að hverfa. Þá er mikil eftirspurn og sala á íbúðarhúsnæði í öllum sveitarfélögunum,“ er haft eftir Magnúsi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×