Enski boltinn

Rooney: Ég verð áfram hjá Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney,
Wayne Rooney, Vísir/Getty
Wayne Rooney, fyrirliði Manchester United, verður áfram hjá félaginu en þetta staðfestir hann í viðtali við BBC.

Rooney hefur verið orðaður við Kína alla þessa viku og sumir fjölmiðlar fóru svo langt að slá því upp að hann myndi semja við kínverskt lið fyrir næsta þriðjudag. Ekkert verður þó að því. Kínverski félagsskiptaglugginn lokar 28. febrúar næstkomandi.  

Wayne Rooney segist vonast til að fá að taka fullan þátt í restinni af tímabilinu hjá Manchester United.  „Þetta er spennandi tími í félaginu og ég vil fá að taka þátt í honum,“ sagði Wayne Rooney við BBC.

Paul Stretford, umboðsmaður Wayne Rooney, flaug til Kína til að reyna að ganga frá samningi en BBC veit ekki við hvaða félög hann ræddi.

Tvö af þremur félögum sem menn töldu koma helst til greina,  Beijing Guoan og Jiangsu Suning, þvertóku fyrir það að Rooney væri á leiðinni til þeirra.

Wayne Rooney varð á dögunum markahæsti leikmaður Manchester United frá upphafi  þegar hann bætti markamet Bobby Charlton. Hann hefur nú skorað 250 mörk fyrir félagið.

Rooney gæti tekið við bikar um komandi helgi þegar Manchester United mætir Southampton á Wembley í úrslitaleik enska deildabikarsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×