Enski boltinn

Rooney: Ég er ekki útbrunninn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rooney hefur ekki byrjað leik fyrir Man Utd síðan 21. september.
Rooney hefur ekki byrjað leik fyrir Man Utd síðan 21. september. vísir/epa
Þrátt fyrir erfiða byrjun á tímabilinu segist Wayne Rooney, fyrirliði Manchester United og enska landsliðsins, ekki vera útbrunninn.

Rooney hefur byrjað á bekknum í síðustu fjórum leikjum Man Utd og var einnig settur á bekkinn fyrir leik Slóveníu og Englands í undankeppni HM 2018 í síðustu viku.

„Ég hef vanalega verið byrjunarliðsmaður svo þetta er nýr veruleiki fyrir mig. Að sjálfsögðu vil ég spila,“ sagði Rooney.

„Ég þarf bara að halda áfram að leggja hart að mér og reyna að vinna mér sæti í liðinu. Ég veit að ég mun fá tækifæri og það er undir mér komið að nýta þau.“

Þrátt fyrir að vera á sínu fimmtánda tímabili í ensku úrvalsdeildinni segist Rooney enn hafa ýmislegt fram að færa.

„Mér finnst ég geta spilað alla leiki en þetta er að sjálfsögðu ákvörðun knattspyrnustjórans og ég virði hana. Ég verð tilbúinn þegar kallið kemur. Ég verð 31 árs í næstu viku. Ég á nóg eftir,“ sagði Rooney sem hefur skorað eitt mark á tímabilinu.

Næsti leikur Man Utd er gegn Fenerbache á Old Trafford í Evrópudeildinni á morgun. Á sunnudaginn sækir liðið svo Chelsea heim í 9. umferð ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×