Sport

Ronda Rousey ætlar að leika sér að matnum í kvöld

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Úr vigtuninni í gærkvöldi.
Úr vigtuninni í gærkvöldi. Vísir/Getty
UFC 190 fer fram í kvöld þar sem Ronda Rousey mætir Bethe Correia í Brasilíu. Aldrei hefur meistari verið jafn sigurstranglegur fyrir titilbardaga í UFC líkt og nú en veðbankarnir meta sigurlíkur Correia litlar sem engar.

Þetta verður sjötta titilvörn Rousey í UFC en hún er eini bantamvigtarmeistari kvenna í sögu bardagasamtakanna. Takist Correia hið ómögulega og sigra Rousey væru það án ef óvæntustu úrslit í sögu MMA.

Sjá einnig: Bethe Correia: Lamb á leið til slátrunar

Rousey hefur klárað síðustu þrjá bardaga sína á samanlagt 96 sekúndum. Hún hefur þó sagt að hún ætli að taka sér sinn tíma með Correia enda lítill kærleikur milli andstæðinganna.

Fyrir það fyrsta hefur Correia sigrað tvo af æfingafélögum Rousey og ítrekað óskað eftir bardaga við meistarann. Í öðru lagi vonaði hún að Rousey myndi ekki fyrirfara sér eftir tapið.

Ummælin eru afar ósmekkleg og sérstaklega í ljósi þess að faðir Rousey fyrirfór sér er Ronda var aðeins átta ára gömul. Correia baðst síðar afsökunar á þessum ummælum sínum en skaðinn var skeður. Rousey ætlar að refsa Correia fyrir þessi ummæli.

Bardaginn er aðalbardaginn á UFC 190 en bein útsending frá viðburðinum hefst kl 2 í nótt og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×