Enski boltinn

Ronaldo var eins og sirkusatriði

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Cristiano Ronaldo vann þrjá Englandsmeistaratitla áður en hann fór til Real Madrid.
Cristiano Ronaldo vann þrjá Englandsmeistaratitla áður en hann fór til Real Madrid. vísir/getty

Frank de Boer, þjálfari Ajax, líkir erfiðri byrjun Memphis Depay hjá Manchester United við fyrstu ár Cristiano Ronaldo hjá félaginu.

Memphis lofaði mjög góðu þegar hann gekk í raðir United frá PSV Eindhoven og fór ágætlega af stað, en var svo settur á bekkinn í rúman mánuð eftir að liðið tapaði illa gegn Arsenal.

Memphis skoraði fyrra mark Manchester United gegn Watford um helgina þar sem hann spilaði sem fremsti maður, en hann var ekki valinn í hollenska landsliðið á dögunum.

Cristiano Ronaldo er goðsögn í lifanda lífi hjá Manchester United, en það voru ekki allir vissir um að hann yrði jafn góður og raun bar vitni fyrst þegar hann kom til United.

„Cristiano Ronaldo náði nú engum rosalegum hæðum þegar hann kom fyrst til Manchester United. Ég man að það var mikill vafi um hvort hann myndi ná alla leið,“ segir De Boer í viðtali við De Telegraaf.

„Hann var gagnrýndur fyrir tilþrif sín og gert grín að honum eins og um sirkusatriði væri að ræða. En sjáið hvert hann er kominn núna.“

„Memphis hefur allt sem þarf til að komast á toppinn, en vissulega er ýmislegt sem þarf að skoða,“ segir Frank de Boer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×