Fótbolti

Ronaldo skoraði þrennu í fyrsta leik Ødegaard

Anton Ingi Leifsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. Vísir/Getty
Cristiano Ronaldo skoraði þrennu í stórsigri Real Madrid á Getafe í síðustu umferð spænsku úrvalsdeildinnar í dag. Lokatölur urðu 7-3, en staðan í hálfleik var 3-3.

Cristiano Ronaldo kom Real yfir, en Sergio Escudero og Diego Castro komu Getafe yfir áður en Ronaldo jafnaði. Ronaldo innsigldi svo þrennuna úr vítaspyrnu á 32. mínútu, en Mehdi Lacen jafnaði fyrir Getafe rétt fyrir hálfleik. 3-3 í fjörugum fyrri hálfleik.

Javier Hernandez kom Real yfir í upphafi síðari hálfleiks og þeir James Rodriguez, Jese Rodriguez og Marcelo bættu við þremur mörkum áður en yfir lauk. Lokatölur 7-3 stórsigur Madrídinga.

Norska ungstirnið, Martin Ødegaard, spilaði síðasta hálftímann, en hann kom inná sem varamaður fyrir Ronaldo. Ødegaard er yngsti leikmaður í sögu félagsins til að spila aðalliðsleik, en Ronaldo endar leiktíðina fimm mörkum á undan Lionel Messi.

Real endar í öðru sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Barcelona. Real vann ekki neinn bikar á þessu tímabili og er það ekki ásættanlegur árangur, en spurning er hvað verður um Carlo Ancelotti, stjóra Real. Getafe endar í fimmtánda sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×