Fótbolti

Ronaldo með 24 þrennur fyrir Real og nálgast fullt af markametum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Cristiano Ronaldo raðar inn mörkum.
Cristiano Ronaldo raðar inn mörkum. vísir/getty
Cristiano Ronaldo er svo sannarlega mættur aftur til leiks í fullu fjöri eftir meiðslin í sumar, en hann skoraði þrennu fyrir Real Madrid þegar liðið valtaði yfir Deportivo La Coruna, 8-2, síðastliðinn laugardag.

Þetta var hvorki meira né minna en 24. þrennan sem Ronaldo skorar fyrir Real Madrid og komst hann með henni fram úr ungversku goðsögninni FerencPuskas sem skoraði 23 þrennur á sínum ferli með Madrídarliðinu. Alfredo di Stéfano á metið, en hann skoraði 28 þrennur fyrir Real Madrid.

Ronaldo virðist hæglega getað ná því, og hvað þá metinu yfir flestar þrennur í spænsku 1. deildinni. Það met á Di Stefáno og Bilbao-goðsögnin TelmoZarra, en báðir skoruðu 22 þrennur í deildinni. Ronaldo er búinn að skora 20 þrennur í spænsku 1. deildinni og Messi 19.

Ronaldo skoraði 17 mörk í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð þegar Real Madrid vann hana í tíunda sinn og bætti þar markametið sem Messi átti, en hann skoraði 14 mörk eina leiktíðina í Meistaradeildinni.

Portúgalinn er í heildina búinn að skora 68 mörk í Meistaradeildinni, þremur minna en Spánverjinn Raúl sem skoraði 71 mark fyrir Real Madrid og Schalke. Ronaldo ætti að bæta það á þessari leiktíð. Kannski bara í næsta leik.

Hann er líka að elta metið yfir flest mörk í Evrópukeppnum, en eftir að skora tvö gegn Sevilla í leiknum um Stórbikarinn í ágúst er hann nú kominn með 71 mark í Evrópu. Hann komst með því fram úr Filippo Inzaghi, fyrrverandi leikmanni Juventus og AC Milan. Raúl á það met líka sem eru 76 mörk.

Ronaldo hefur sagst ætla að enda sem markahæsti leikmaður Real Madrid frá upphafi, en hann er búinn að skora 260 mörk fyrir liðið. Raúl er þar einnig markahæstur með 323 mörk, en Ronaldo er í fjórða sæti á eftir Di Stéfano (308) og Santillana (290).

Raúl skoraði 323 mörk í 741 leik en Ronaldo skoraði sín 260 í 253 sem gerir aðeins meira en eitt mark í leik. Það er betri árangur en nokkur maður á topp tíu listanum yfir markahæstu menn Real Madrid frá upphafi.

Tölfræði Cristiano Ronaldo með Real Madrid:

Leikir: 253

Mörk: 260

Þrennur: 24

Þrennur í deildinni: 20

Mörk í Meistaradeildinni: 68

Goal.com tók saman.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×