Fótbolti

Ronaldo hleður Ashley Cole lofi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ashley Cole og Cristiano Ronaldo í leik Chelsea og Manchester United árið 2009.
Ashley Cole og Cristiano Ronaldo í leik Chelsea og Manchester United árið 2009. Vísir/Getty
Cristiano Ronaldo, einn besti knattspyrnumaður heims, segir að Ashley Cole, fyrrum bakvörður Arsenal og Chelsea, sé erfiðasti andstæðingur sem hann hafi mætt á sínum ferli.

Ronaldo spilaði með Manchester United í sex ár og mætti þá Cole reglulega sem og í landsleikjum í gegnum tíðina.

Ronaldo hefur þó spilað gegn bestu varnarmönnum heims með Evrópumeisturum Portúgal og Real Madrid, núverandi félagsliði sínu, á löngum og glæsilegum ferli.

„Ég háði margar frábæra slagi við Ashley Cole. Hann gefur manni ekki eina sekúndu til að anda,“ sagði Ronaldo í samtali við Coach Mag samkvæmt frétt á vefsíðu Sky Sports.

„Hann var afar þrautseigur leikmaður þegar hann var upp á sitt allra besta - fljótur og harður af sér í tæklingum. Maður vissi alltaf að það yrði ekki auðvelt að spila gegn honum.“

Hann segir að hann beri mikla virðingu fyrir Lionel Messi, þó svo að þeir hafi aldrei verið perluvinir.

„Það er mikil gagnkvæm virðing okkar á milli. Fjölmiðlar láta eins og það sé mikill rígur okkar á milli en þannig er það ekki,“ sagði Ronaldo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×