Fótbolti

Ronaldo gæti spilað á móti United

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Cristiano Ronaldo er að verða klár.
Cristiano Ronaldo er að verða klár. vísir/getty
Cristiano Ronaldo er allur að koma til eftir hnémeiðsli og gæti snúið aftur í lið Real Madrid í leiknum gegn Manchester United í International Challenge Cup-mótinu á laugardaginn.

Frá þessu er greint á vef Guardian, en Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, vonast til að geta notað Portúgalann í leiknum í Detroit um helgina.

„Ronaldo æfði tvisvar sinnum í dag [gær] og æfir svo sjálfur aukalega. Við skulum sjá til á næstu dögum hvort hann geti æft með liðinu og spilað á móti Manchester United. Við þurfum að passa okkur og vera rólegir með hann,“ sagði Ancelotti í gær.

Real vonast til að Ronaldo verði orðinn alveg klár fyrir fyrsta mótsleik liðsins á komandi tímabili sem verður á móti Sevilla í Stórbikar Evrópu í Cardiff 12. ágúst.

Real er búið að styrkja hópinn vel fyrir komandi átök, en liðið hefur fengið til sín Kólumbíumanninn James Rodríguez og þýska miðjumanninn Toni Kroos.

Leikur Real Madrid og Manchester United er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×