Fótbolti

Ronaldo ekki skorað úr aukaspyrnu í 310 daga

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Cristiano Ronaldo skorar gegn Bayern 29. apríl 2014.
Cristiano Ronaldo skorar gegn Bayern 29. apríl 2014. vísir/getty
Er kominn tími til að Gareth Bale taki flestar aukaspyrnur Real Madrid? Það gæti verið þegar horft er til þess hversu langt er síðan Cristiano Ronaldo skoraði síðast úr aukaspyrnu fyrir liðið.

TalkSPORT birti í dag tölfræði yfir síðustu aukaspyrnur Ronaldo, en ótrúlegt en satt hefur hann ekki skorað úr einni slíkri fyrir Real Madrid síðan 29. apríl á síðasta ári.

Síðast skoraði Ronaldo úr aukaspyrnu fyrir Real í sigri á Bayern München í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í fyrra.

Í heildina eru því 310 dagar síðan Ronaldo skoraði úr aukaspyrnu fyrir Madrídarliðið, en hann hefur tekið 51 aukaspyrnu síðan hann skoraði síðast.

Flestar hafa farið í varnarvegginn eða 21 spyrna, fjórtán hafa ekki hitt markið og 16 verið varðar af markvörðunum eða smollið í tréverkinu.

Ronaldo hefur þó ekkert hætt að skora yfir höfuð, en hann setti 51 mark í öllum keppnum á síðasta tímabili og er búinn að skora 39 mörk á yfirstandandi leiktíð. Í heildina hefur hann skorað 291 mark í 282 leikjum fyrir Real Madrid á fimm og hálfri leiktíð.

vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×