Innlent

Rómantísk en ekki gamaldags

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
 Halldóra Björnsdóttir er komin aftur í leiklistina eftir sex ára hlé.
Halldóra Björnsdóttir er komin aftur í leiklistina eftir sex ára hlé. Vísir/Valli
Halldóra er á hraðferð í borginni, kom frá Ísafirði kvöldið áður og er á leið úr landi morguninn eftir, þegar ég hitti hana á kaffihúsi Tjarnarbíós í vikunni. Tjarnarbíó verður vinnustaður hennar í haust en enn sem komið er býr hún á Ísafirði þar sem maður hennar er sýslumaður. Var það ekkert erfið ákvörðun að yfirgefa blómstrandi starfsframa í leikhúsinu og flytja vestur á firði?



„Þetta gerðist allt óskaplega hratt. Ég var búin að vera á samningi í Þjóðleikhúsinu í sautján ár og byrjuð að æfa Sumarljós og svo kemur nóttin eftir Jón Kalman Stefánsson vorið 2008 þegar maðurinn minn, Úlfar Lúðvíksson, var ráðinn sýslumaður á Patreksfirði. Fyrst ætluðum við að hafa þetta þannig að hann færi þangað með miðdóttur okkar og ég yrði í borginni með hin börnin tvö. En einn daginn þegar ég var að skúra heima hjá mér gerðist eitthvað innra með mér og ég vissi að ég yrði að fara með honum, hringdi í Tinnu þjóðleikhússtjóra og fékk leyfi frá störfum í eitt ár. Þetta var í kringum verslunarmannahelgina og 18. ágúst stóð ég inni á kennarastofu á Patreksfirði, orðin kennari, og hugsaði: Hvað er ég eiginlega að gera hérna?“



Gamaldags að elta manninn

Halldóra var ráðin umsjónarkennari við fjórða bekk grunnskólans auk þess að kenna öllum bekkjum leiklist. Hún er fædd og uppalin í Reykjavík en segir vera í sér mikið flökkueðli og að henni hafi ekkert vaxið í augum að flytja vestur á firði, þótt hún hefði aðeins einu sinni komið á Patreksfjörð áður og aldrei til Ísafjarðar. „Við höfðum áður búið úti á landi á sumrin, sex sumur á Höfn í Hornafirði og tvö sumur í Borgarnesi, auk þess sem ég var alltaf í sveit á sumrin sem krakki, þannig að ég vissi nú nokkurn veginn hvað ég var að fara út í. Það var líka tekið mjög vel á móti okkur og eftir nokkra daga þekkti maður nánast alla í bænum enda fór Úlfar beint að vinna á sýsluskrifstofunni, ég að kenna í grunnskólanum, dóttir okkar fór í 7. bekk og sonur okkar í leikskólann svo maður var strax orðinn þátttakandi í bæjarlífinu.“



Tveimur árum síðar flutti fjölskyldan til Ísafjarðar þar sem Halldóra setti upp nokkur leikrit, bæði með Litla leikklúbbnum og Leikfélagi menntaskólans, en hún steig aldrei á svið sjálf fyrir vestan. Var það meðvituð ákvörðun að leggja leiklistina á hilluna eða réðu örlögin því að hún féll í skuggann? „Eiginlega bæði. Ég get sagt þér fallega sögu sem útskýrir þetta ágætlega. Þegar ég var að leikstýra krökkunum í Menntaskólanum á Ísafirði spurðu þau mig: Halldóra, hættirðu bara í Þjóðleikhúsinu og fluttir með manninum þínum út á land? Og ég sagði auðvitað eins og var að ég hefði elt manninn minn og spurði svo hvort þeim fyndist ég gamaldags. Þá svaraði ein stúlkan: Nei, mér finnst þetta rómantískt. Og ég hef bara haldið mig við þá skýringu.“



Af hverju er ég Björnsdóttir?

Halldóra sér ekki eftir því að hafa tekið þá ákvörðun að láta rómantíkina ráða en viðurkennir að það hafi ekki alltaf verið auðvelt. „Mér finnst fjöllin á Vestfjörðum erfið. Fólk er alltaf að tala um hvað fjöllin séu yndisleg og haldi vel utan um mann en mér finnst þau alltaf um það bil að detta ofan á mig. Hins vegar eru Vestfirðir jafnyndislegir á sumrin og þeir eru erfiðir stundum á veturna. Það sem gerist líka ef maður býr lengi úti á landi er að maður mætir sjálfum sér og þarf að takast á við sig. Það vakna jafnvel hjá manni nýjar tilfinningar. Mannlegar tilfinningar eru náttúrulega mitt áhugamál og mér finnst þær mjög spennandi viðfangsefni. Sú hugsun sem verður áleitin þegar maður lifir við allt aðrar aðstæður en maður er vanur er: Úr hverju er ég? Hvað hefur mótað mig?



Sú spurning hefur svo sem sótt að mér áður því foreldrar mínir sögðu mér í kringum sex ára aldurinn að pabbi minn Gunnar Hafsteinn Þórisson, sem ég hafði alist upp hjá, væri fósturpabbi minn en blóðfaðir minn væri Björn Þórarinsson sem ég þekkti þá ekki neitt. Sú vitneskja ruglaði mig í ríminu. Krakkarnir höfðu spurt af hverju ég héti Halldóra Björnsdóttir þegar pabbi minn héti Gunnar og við því átti ég ekkert svar. Og í framhaldinu vildi ég láta breyta nafninu mínu í Halldóra Gunnarsdóttir. Þá sagði Gunnar þessi orð sem ég gleymi aldrei og eru eitt af því sem hefur mótað mig: „Halldóra mín, það er alveg sama hvers dóttir þú ert, mér þykir alltaf jafnvænt um þig og þú munt vilja þekkja uppruna þinn.“ Þar með þurfti ég ekki að hugsa meira um það, átti minn pabba sem var Gunnar og vissi af Birni sem ég hef svo verið að kynnast hin síðari ár. Ég er Gunnari ævarandi þakklát og elst svo upp hjá þeim mömmu, Loftveigu Kristínu Kristjánsdóttur, ásamt Sólveigu og Grími, yngri systkinum mínum. Í þeirra fjölskyldum var enginn sem lagði út á listabrautina. Björn aftur á móti er tónlistarmaður og þaðan hef ég líklega listagenið. Ég man eftir því að hafa staðið sem unglingur og horft á hendur mínar og fætur og tekið þá ákvörðun að það væri skylda mín að sýna fólki hvað ég gæti og hvað tilfinningaskalinn er stór. Það var sennilega grunnurinn að þeirri ákvörðun að leggja fyrir mig leiklistina.“



Reyndi á þolmörkin

Ég sé ekki eftir því í eina mínútu að hafa látið rómatíkina ráða og fylgt Úlfari vestur en í hjarta mínu verð ég alltaf leikkona. Það er það sem ég stend fyrir, hvort sem ég er á sviði eða ekki. Allt sem ég geri tengist leiklistinni og ég er búin að gera það upp við mig að ég get aldrei yfirgefið hana. Þegar ég tók þá ákvörðun að fara var ég reyndar búin að vera að leika mjög mikið lengi og var alveg tilbúin í smá frí, en vissi samt ekkert út í hvað ég var að fara eða hvað þetta yrði langur tími. Þetta voru ákveðin þolmörk og ég fór alveg allan skalann.“



Nú eru aftur breytingar fram undan hjá fjölskyldunni því sýslumannsembættin á Vestfjörðum hafa verið sameinuð svo þar verður aðeins einn sýslumaður. Halldóra segist ekki vita hvert leiðin liggur næst, en hún tók sig reyndar upp síðastliðið haust og hóf mastersnám í kennslufræðum listgreina við Listaháskólann. Hún hefur því verið með annan fótinn í borginni síðasta árið og í september mun hún stíga á svið í Tjarnarbíói, í leikritinu Róðaríi eftir Hrund Ólafsdóttur, eftir sex ára fjarveru frá leiklistinni. Hún segist hafa þurft að hugsa sig dálítið um áður en hún ákvað að taka hlutverkið að sér. „Þjálfunin er öll þarna ennþá en ég finn alveg að líkaminn og röddin láta ekki alveg að stjórn svo þetta er pínu átak. Ég veit ekkert hvort það verður framhald á því að ég leiki, það liggur í eðli starfsins að maður veit í mesta lagi hvað maður fær að gera eitt ár í senn, svo það verður bara að ráðast hvert framhaldið verður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×