Íslenski boltinn

Rolf Toft: Víkingur hafði meiri áhuga

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rolf Toft varð Íslandsmeistari með Stjörnunni í sumar.
Rolf Toft varð Íslandsmeistari með Stjörnunni í sumar. vísir/andri marinó
„Ég er ánægður með að þetta sé klárt,“ segir Rolf Toft, danski framherjinn sem samdi við Víking fyrr í dag, í samtali við Vísi.

Toft, sem skoraði sex mörk í ellefu leikjum í Pepsi-deildinni með Stjörnunni í sumar, segist ekki velkjast í vafa um að hann hafi tekið rétta ákvörðun.

„Ég vissi frá byrjun að þetta væri rétt ákvörðun og ég er ánægður með að þetta hafi gengið upp,“ segir Toft, sem ræddi einnig við Stjörnumenn.

„Stjarnan var inn í myndinni, en Víkingur hafði meiri áhuga og sýndi þann áhuga í verki. Þess vegna valdi ég Víking.“

„Ég var að leita mér að liði í stærri deild en það gekk ekki upp. Það verður gaman að koma aftur til Íslands þar sem ég á góðar minningar. Ég kem ekki sorgmæddur aftur til Íslands.“

Daninn er í Danmörku og veit ekki hvenær hann kemur til Íslands aftur, en hann er búinn að ræða við Milos Milojevic, annan þjálfara Víkinga, um markmiðin næsta sumar.

„Hann hringdi í mig áður en þetta kom til umboðsmanns míns og spurði hvort ég væri áhugasamur um að koma. Hann sagði mér hvernig æfingarnar eru, hvernig þeir gera hlutina og hver markmið sumarsins eru. Mér leist vel á þetta allt,“ segir Toft sem skilur við Stjörnuna með söknuði.

„Það var gaman í Stjörnunni og ég lít til baka glaður á tímann sem ég dvaldi þar. En nú tekst ég á við nýtt verkefni,“ segir framherjinn.

Stjarnan fór alla leið í umspil um sæti í Evrópudeildinni í ár, en Víkingar taka þátt í Evrópudeildinni næsta sumar. Það er í fyrsta sinn í 23 ár sem liðið spilar í Evrópu.

„Nú er bara að sjá hvort við getum ekki farið jafn langt eða lengra en Stjarnan,“ segir Rolf Toft léttur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×