Innlent

Rök mæla með endurupptöku í Geirfinns-málinu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frá flutningi málsins fyrir dómi á sínum tíma.
Frá flutningi málsins fyrir dómi á sínum tíma. mynd/bjarnleifur
Rök eru fyrir endurupptöku þriggja manna sem áttu aðild í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Davíð Þór Björgvinsson, settur ríkissaksóknari, hefur skilað áliti sínu en samkvæmt niðurstöðu hans eru til rök sem mæla með því að mál Sævars Ciesielskis, Tryggva Rúnars Leifssonar og Alberts Klahns Skaftasonar verði tekið upp á nýju. Þetta kemur fram í frétt RÚV.

Áður hafði saksóknari komist að þeirri niðurstöðu að rök mæltu til þess að mál Guðjóns Skarphéðinssonar yrði tekið upp á nýju. Ekki þykja rök til þess að taka mál Erlu Bolladóttur upp á nýjan leik. Málið fer nú fyrir endurupptökunefnd sem ákveður næstu skref í því.

„Þetta er eitt skref í rétt átt,“ segir Guðjón Ólafur Jónsson lögmaður Alberts Klahns Skaftasonar í samtali við Vísi. „Enn er engin niðurstaða komin í hvort málið verði tekið upp á ný og því síður komið að einhverjum málflutningi.“ Aðspurður segir hann að viðbúið sé að niðurstaða endurupptökunefndar liggi í fyrsta lagi fyrir í árslok.

Rúm fjörutíu ár eru síðan síðast sást til Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar. Sex manns voru dæmdir fyrir aðild sína að málinu. Sævar Ciesielski hlaut sautján ára dóm, Kristján Viðar Viðarsson sextán ár og Tryggvi Rúnar Leifsson þrettán ár. Guðjón Skarphéðinsson hlaut tíu ára dóm, Erla Bolladóttir þrjú ár og Albert Klahns Skaftason eitt ár. Sævar og Tryggvi eru nú látnir.

Ekki náðist í Lúðvík Bergvinsson við vinnslu fréttarinnar en hann fer með málið fyrir hönd Sævars Cieselskis og Tryggva Rúnars Leifssonar.


Tengdar fréttir

Aldrei sannað að Guðmundur og Geirfinnur hafi verið myrtir

Aldrei hefur verið sannað með óyggjandi hætti að nein glæpaverk hafi verið unnið við hvarf Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar, sagði Jón Steinar Gunnlaugsson þáverandi lögmaður og síðar hæstaréttardómari í grein í Morgunblaðinu. Greinina ritaði Jón Steinar í ágúst 1997, fáeinum dögum eftir að Hæstiréttur hafnaði beiðni um endurupptöku málsins.

Björgvin vill taka upp Guðmundar- og Geirfinnsmálin að nýju

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, skorar á Ögmund Jónasson innanríkisráðherra að beita sér fyrir því að Guðmundar- og Geirfinnsmálin svokölluðu verði tekin upp að nýju. Eftir að Guðmundur Einarsson og Geirfinnur Einarsson hurfu sporlaust um miðjan áttunda áratuginn voru fjögur ungmenni dæmd í fangelsi. Málsmeðferðinni var allan tímann verulega ábótavant og einn hinna dæmdu, Sævar Ciesielski, krafðist ítrekað endurupptöku málsins. Sævar lést í Kaupmannahöfn á miðvikudaginn.

Óreiðukennt uppgjör við Geirfinnsmálið

Hvörf er hörð ádeila á íslenskt réttarkerfi og glæpsamlega meðferð yfirvalda í einu stærsta sakamáli íslensku þjóðarinnar sem líður fyrir óreiðukennda framsetningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×