Enski boltinn

Rodgers um Sterling: Einfalt mál, hann á tvö ár eftir af samningnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brendan Rodgers og Raheem Sterling.
Brendan Rodgers og Raheem Sterling. Vísir/Getty
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, tjáði sig um mál Raheem Sterling á blaðamannafundi í morgun en framtíð Sterling hefur verið í mikilli óvissu eftir yfirlýsingar um að hann vilji fara frá félaginu.

„Staðreyndir málsins eru einfaldar. Raheem á tvö ár eftir af samningi sínum og ég býst við því að hann spili með okkur út þessi tvö tímabil og haldi áfram að hegða sér jafn óaðfinnanlega og hann hefur gert frá því að hann kom til félagins," sagði Brendan Rodgers.

„Raheem hefur gert okkur fulla grein fyrir því að hann vilji ræða málin eftir tímabilið og við ætlum því að einbeita okkur að síðasta leiknum. Ég er viss um að þessar viðræður fari fram einhvern tímann í sumar," sagði Brendan Rodgers.

„Ég hef ekki orðið var við það að Raheem sé óánægður. Hann er ungur maður sem hefur bætt sig ótrúlega mikið á síðustu þremur tímabilum. Ég von að hann haldi því áfram," sagði Rodgers og hann segir Raheem Sterling vera kláran í slaginn fyrir leikinn á móti Stoke um helgina.

„Hann er heill og verður í leikmannahópnum. Þetta mál hefur ekkert haft áhrif á samband okkar tveggja. Raheem hefur fengið tækifæri til að spila fyrir eitt af flottustu félögunum í heimi og hann hefur nýtt það tækifæri vel," sagði Rodgers.

„Raheem er góður strákur sem hefur þroskast mikið og vel undanfarin ár. Hann er yndislegur ungur fótboltamaður. Það er ekkert vandamál í gangi," sagði Rodgers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×