Enski boltinn

Rodgers um Balotelli: Bara tímaspursmál um hvenær hann fer að skora

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli á æfingu fyrir leikinn.
Mario Balotelli á æfingu fyrir leikinn. Vísir/Getty
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool ætlar að bíða eftir því að ítalski framherjinn Mario Balotelli detti í markagírinn og spáir því að það gerist á móti Real Madrid í Meistaradeildinni í kvöld.

„Hann skorar mikilvæg mörk í mikilvægum leikjum. Ég er viss um að hann kemur með rétta hugarfarið inn í Real-leikinn ef ég þá vel hann í liðið," sagði Brendan Rodgers á blaðamannafundi fyrir leikinn á móti Real Madrid á Anfield í kvöld.

Hinn 24 ára gamli Mario Balotelli hefur aðeins skorað 1 mark í 9 leikjum með Liverpool síðan að félagið keypti hann á 16 milljónir punda frá AC Milan í ágúst síðastliðnum.

„Það er bara tímaspursmál um hvenær hann fer að skora mörkin sín," sagði Brendan Rodgers ennfremur en Mario Balotelli var harðlega gagnrýndur fyrir frammistöðu sína á móti Queens Park Rangers í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.  Balotelli klúðraði mörgum góðum færum í leiknum.

„Ég lagði áherslu á það við hann að það væri gott að hann væri að koma sér í færi til þess að klúðra þeim. Hann er að mæta á rétt svæði á réttum tíma. Á meðan hann er í færunum þá er ég sannfærður um að hann fari að skora," sagði Rodgers.

Leikur Liverpool og Real Madrid hefst klukkan 18.45 í kvöld og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og Stöð 2 Sport HD.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×