Enski boltinn

Rodgers gæti fengið tæpa tvo milljarða frá Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Það gæti reynst dýr ákvörðun að hafa rekið Brendan Rodgers frá Liverpool miðað við frétt the Telegraph í dag.

Rodgers var í gær rekinn frá Liverpool eftir 1-1 jafntefli við Everton. Ákvörðunin hefur legið í loftinu síðustu daga og vikur og þykir Jürgen Klopp líklegastur til að taka við starfinu.

Rodgers fékk nýjan samning við Liverpool í maí árið 2014 eftir að liðið varð naumlega af enska meistaratitlinum eftir æsilegan lokasprett á tímabilinu.

Írinn átti þrjú ár eftir af samningi sínum við félagið og samkvæmt frétt blaðsins var ekkert uppsagnarákvæði í honum. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að hann fari fram á að Liverpool greiði honum allt andvirði samningsins, um tíu milljónir punda - jafnvirði tæpra tveggja milljarða króna.

Líklegt er að fulltrúar Liverpool reyni að gera starfslokasamning við Rodgers en hann er sagður reiðubúinn að taka sér frí þar til að hann tekur að sér nýja stöðu og það gæti komið honum vel í viðræðunum við Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×