Enski boltinn

Rodgers: Sterling lítur út eins og hann sé tólf ára

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Raheem Sterling snoðaði sig fyrir leikinn og fór á kostum.
Raheem Sterling snoðaði sig fyrir leikinn og fór á kostum. vísir/getty
Raheem Sterling skartaði nýrri hárgreiðslu í deildabikarsigri Liverpool gegn toppliði B-deildarinnar, Bournemouth, í gærkvöldi.

Hvort það hafi verið nýja greiðslan eða eitthvað annað þá fór Sterling á kostum og skoraði tvö mörk fyrir Liverpool, þar af sitt fyrsta í síðustu 18 leikjum.

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, gat ekki hrósað ungstirninu nóg eftir leikinn, en Sterling er í viðræðum við félagið um að gera nýjan fimm ára samning.

„Mun hann halda nýju happa-hárgreiðslunni? Ég vona það. Hann lítur út fyrir að vera tólf ára, hann er svo unglegur. En hann er nýorðinn tvítugur,“ sagði Rodgers glaður eftir leikinn.

„Mér fannst hann alveg frábær. Af einhverjum ástæðum fær þessi strákur mikla gagnrýni. Samningsstaða hans hefur ekkert með leikmanninn að gera. Hans menn eru að vinna í málunum með félaginu.“

„Það sjá allir að hann er ánægður og nýtur þess að spila fótbolta. Hann var óheppinn að skora ekki á Old Trafford, en hann var samt virkilega hættulegur á sunnudaginn.“

Liverpool dróst á móti Chelsea í undanúrslitum deildabikarins og mætir lærisveinum José Mourinho því heima og að heiman í byrjun nýs árs.

Næst mætir Liverpool liði Arsenal í ensku úrvalsdeildinni um helgina.


Tengdar fréttir

Liverpool og Tottenham í undanúrslitin - Sterling skoraði tvö

Ensku úrvalsdeildarliðin Liverpool og Tottenham tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum enska deildabikarsins. Liverpool sló út b-deildarliðið Bournemouth á útivelli en Tottenham vann 4-0 stórsigur á Newcastle á heimavelli.

Rodgers óttast ekki að missa Sterling

Það er mikið rætt og ritað um framtíð Raheem Sterling hjá Liverpool en ekki hefur gengið að fá leikmanninn unga til þess að skrifa undir nýjan samning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×