Enski boltinn

Rodgers: Mun ekki eyða að óþörfu

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Brendan Rodgers í leik Liverpool og Bröndby.
Brendan Rodgers í leik Liverpool og Bröndby. Vísir/Getty
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, er ekki hættur á leikmannamarkaðnum í sumar en liðið hefur þegar gengið frá kaupunum á fjórum leikmönnum.

Liverpool hefur þegar fengið til sín þá Adam Lallana og Rickie Lambert frá Southampton, Lazar Markovic frá Benfica og Emre Can frá Bayer Leverkusen en félagið missti af síleska framherjanum Alexis Sanchez til Arsenal.

„Ég hef ekki áhyggjur af því að bestu leikmenn heimsins vilji ekki ganga til liðs við Liverpool. Staðsetningin skipti miklu máli fyrir Alexis Sanchez, fjölskyldan vildi frekar búa í London og var þetta óháð því hver framtíðarmarkmið klúbbana eru,“ sagði Rodgers sem gerir ráð fyrir að bæta við leikmönnum fyrir peninginn sem fékkst fyrir Luis Suárez.

„Það er enn nóg eftir, við vorum búnir að ákveða kaupin á þessum leikmönnum áður en tilboðið barst í Luis. Okkur vantaði meiri breidd í leikmannahópinn í fyrra og það verður meira álag á leikmannahópnum í ár þegar Meistaradeildin hefst,“ sagði Rodgers sem ætlar ekki að kaupa leikmenn án þess að vanda valið vel.

„Peningurinn sem fékkst fyrir hann verður notaður til þess að finna leikmenn í hæsta gæðaflokki. Við munum ekki kaupa leikmenn bara til þess að eyða peningunum,“ sagði Rodgers.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×