Enski boltinn

Rodgers: Gerrard jafn áreiðanlegur og klukkan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard öskrar hér á Anthony Taylor dómara.
Steven Gerrard öskrar hér á Anthony Taylor dómara. Vísir/Getty
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool segir að fyrirliði sinn, Steven Gerrard, sé besti leikmaðurinn sem hann hefur unnið með.

Steven Gerrard er orðinn 34 ára gamall hefur fengið mikla gagnrýni fyrir frammistöðu sína á þessu tímabili en það virðist ekki hafa gert honum gott að hætta í enska landsliðinu.

Liverpool-liðið er líka í tómu tjóni, hefur tapað fjórum leikjum í röð og er komið niður í tólfta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Liverpool heimsækir Ludogorets Razgrad í Meistaradeildinni í kvöld og gæti verið úr leik eftir leiki kvöldsins verði úrslitin þeim óhagstæð. Tap í Búlgaríu á sama tíma og Basel vinnur Real Madrid myndi þýða að Liverpool kæmist ekki upp úr riðlinum.

„Gerrard er ennþá frábær leikmaður og sá besti sem ég hef unnið með," sagði Brendan Rodgers á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Ég er ekki að láta tilfinningasemi trufla mig í þessu mati mínu. Ég sé Steven á hverjum degi. Ég dæmi hann af því sem ég sé til hans á æfingasvæðinu. Hann er þar jafn áreiðanlegur og klukkan," sagði Brendan Rodgers.

„Það er líka auðvelt að stýra honum því hann háklassa fagmaður og gerir alltaf það sem nýtist Liverpool best," sagði Rodgers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×