Enski boltinn

Robson: Rooney getur orðið næsti fyrirliði Englands

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Verður Rooney næsti fyrirliði enska landsliðsins?
Verður Rooney næsti fyrirliði enska landsliðsins? Vísir/Getty
Bryan Robson, fyrrum leikmaður Manchester United og Englands, segir í samtali við BBC SportWayne Rooney geti tekið við fyrirliðabandi enska landsliðsins af Steven Gerrard sem tilkynnti í gær að hann væri búinn að leggja landsliðsskóna á hilluna.

"Það er enginn augljós kostur sem fyrirliði," sagði Robson og bætti við:

"Rooney hefur gegnt stöðu fyrirliða hjá Manchester United og Englandi. Hann veit um hvað málið snýst."

Robson segir ennfremur að einn af eldri og reyndari leikmönnunum í enska landsliðshópnum verði fyrir valinu.

"Vonandi munu einhverjir af ungu strákunum í landsliðinu stíga fram og sanna sig eftir vonbrigðin á HM, og gera sig gildandi innan leikmannahópsins.

"Ég sé það samt ekki gerast. Þú verður að leita til reyndari leikmanna sem eru fastamenn í landsliðinu.

"Joe Hart, Gary Cahill og Wayne Rooney koma allir til greina," sagði Robson sem bar fyrirliðabandið hjá Englandi í 65 leikjum á sínum tíma, en aðeins Bobby Moore og Billy Wright hafa gegnt stöðu fyrirliða enska landsliðsins oftar en hann.

Robson segir Rooney búa yfir þeim kostum sem prýða góðan fyrirliða.

"Rooney er okkar besti leikmaður. Hann gengur fram fyrir skjöldu og vinnur vel fyrir liðið.

"Það breytir engu í hvaða stöðu hann spilar, Rooney leggur sig alltaf fram.

"Það er einkenni á góðum fyrirliða. Ef Rooney verður fyrir valinu, þá efast ég ekki um að hann muni standa sig með sóma," sagði Robson að lokum.

Rooney hefur tvisvar gegnt stöðu fyrirliða hjá enska landsliðinu; gegn Brasilíu í æfingaleik árið 2009 og þremur árum seinna í leik gegn San Marinó í undankeppni HM 2014.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×