Körfubolti

Robinson troðslukóngurinn og Gordon þristakóngurinn | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Glenn Robinson III er troðslukóngur NBA-deildarinnar 2017.
Glenn Robinson III er troðslukóngur NBA-deildarinnar 2017. vísir/getty
Glenn Robinson III, leikmaður Indiana Pacers, bar sigur úr býtum í troðslukeppninni á Stjörnuleikshelgi NBA-deildarinnar í New Orleans í nótt.

Fjórir tóku þátt í troðslukeppninni í ár; Robinson, Derrick Jones yngri (Phoenix Suns), DeAndre Jordan (Los Angeles Clippers) og Aaron Gordon (Orlando Magic).

Robinson og Jones komust áfram í úrslit og þar hafði sá fyrrnefndi betur, fékk 94 stig gegn 87 stigum Jones.

Robinson tryggði sér sigurinn með því að troða aftur fyrir bak yfir Paul George, samherja sinn hjá Indiana, lukkudýr Indiana og klappstýru félagsins sem stóð öll undir körfunni. Robinson fékk hæstu mögulegu einkunn (50) fyrir troðsluna.

Eric Gordon, leikmaður Houston Rockets, vann þriggja stiga keppnina.

Gordon fékk 24 stig í fyrstu umferðinni og 21 stig í úrslitunum þar sem hann keppti gegn Kyrie Irving (Cleveland Cavaliers) og Kemba Walker (Charlotte Hornets).

Kristpas Porzingis, leikmaður New York Knicks, vann svo hæfileikakeppnina.

Hinn árlegi Stjörnuleikur NBA-deildarinnar fer fram í nótt.

Stjörnuleikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD og hefst útsendingin klukkan 01:00.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×