Handbolti

Róbert endurnýjar kynnin við Árósa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Róbert verður að vanda í treyju númer 18 hjá Århus.
Róbert verður að vanda í treyju númer 18 hjá Århus. mynd/heimasíða århus
Landsliðsmaðurinn Róbert Gunnarsson hefur skrifað undir tveggja ára samning við danska handboltaliðið Århus Håndbold. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.

Róbert kemur til Århus í sumar frá franska meistaraliðinu Paris Saint-Germain. Róbert þekkir vel til hjá Århus en hann lék með liðinu á árunum 2002-05.

Róbert er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Århus en hann var markakóngur dönsku deildarinnar tímabilið 2004-05 með 241 mark. Sama tímabil var hann valinn besti leikmaður dönsku deildarinnar.

Róbert, sem verður 36 ára í maí, hefur leikið með PSG undanfarin þrjú ár en hann hefur fengið fá tækifæri með liðinu í vetur. Hann hefur einnig leikið með þýsku liðunum Gummersbach og Rhein-Neckar Löwen á ferli sínum í atvinnumennsku.

Róbert hefur verið fastamaður í íslenska landsliðinu um langt árabil og verið með liðinu á öllum stórmótum frá og með EM 2004 í Slóveníu.

Róbert sendi stuðningsmönnum Århus kveðju í myndbandi sem sjá má hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×