Handbolti

Róbert: Við klúðruðum þessu sjálfir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Róbert í kunnulegri stöðu á línunni.
Róbert í kunnulegri stöðu á línunni. Vísir/Getty
Róbert Gunnarsson, línumaður íslenska landsliðsins og PSG í Frakklandi, segir að strákarnir vilji bæta fyrir slæma frammistöðu í leikjunum gegn Bosníu í júní í sumar.

Ísland tapaði óvænt fyrir Bosníu og varð þar með af sæti á HM í Katar sem fer fram í janúar. Það var mikið áfall fyrir landsliðið og leikmenn héldu inn í sumarfríið með óbragð í munni.

„Við viljum fyrst og fremst sýna að við erum ekki svona lélegir,“ sagði Róbert en Ísland mætir Ísrael í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2016 í kvöld. Leikurinn fer fram í Laugardalshöllinni.

„Öllum svíður að hafa farið inn í sumarið eins og við gerðum. Við fórum í góða naflaskoðun og komum einbeittir inn í þessa leiki nú. Við viljum gera þetta almennilega aðallega fyrir okkur sjálfa.“

Líkt og ítarlega hefur verið fjalla um ákvað Alþjóðahandknattleikssamandið, IHF, að draga keppnisrétt Eyjaálfu til baka og veita Þýskalandi, þó svo að Ísland hafi verið fyrsta varaþjóð EHF.

HSÍ fór með málið í dómstólakerfi IHF en þrátt fyrir að niðurstöðu sé enn beðið er ljóst að Ísland verður ekki meðal þátttökuþjóða í Katar.

Róbert segir að umræðan um kæruna og málinu öllu hafi ekki haft áhrif á liðið. „Ég leit aldrei svo á þetta mál að þetta væri leið inn á mótið fyrir okkur. Við klúðruðum þessu sjálfir og þar með var þetta bara búið.“

„Það má hins vegar alveg deila um hvers konar trúverðugleika handboltahreyfingin hefur sem stofnun þegar svona lagað gerist. Þetta hefur rifið okkur niður sem handboltaeiningu.“

„En þetta er ekki bara svona í handbolta. Svona lagað hefur líka gerst í körfunni og spillingin er enn stærri í fótboltanum - hún er kannski bara of augljós þar. Þetta er því miður alls staðar.“

Róbert segist ekki þekka mikið til liðs Ísraels en segir enga hættu á því að strákarnir vanmeti andstæðing kvöldsins. „Hins vegar er það svo að við eigum að vinna Ísrael - og það segi ég ekki með nefið upp í loftið. Við þurfum fyrst og fremst að spila aftur saman sem lið og finna aftur til öryggis innan liðsins.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×