Handbolti

Róbert: Getum verið meðal lélegustu liða í heimi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Róbert í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Róbert í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2. vísir/skjáskot
Róbert Gunnarsson, línumaður Íslands, segir að Portúgala beri að varast, en liðin mætast í fyrri umspilsleiknum um laust sæti á HM í Laugardalshöllinni á morgun.

Liðin mættust í tveimur æfingarleikjum í janúar áður en Ísland hélt á EM, en Portúgalar unnu annan leikinn og komu Íslendingum á óvart.

„Við lærðum það að það má ekki vanmeta þá, en það sem er gott við leikina í janúar er að við vitum hvar þeir standa og hvar við stöndum," sagði Róbert í samtali við Stöð 2.

„Við getum verið frábærir þegar við hittum á daginn, en getum verið meðal lélegustu liða í heimi þegar við erum ekki að hitta á daginn."

„Það hefur alltaf verið okkar vandamál. Ef við gerum það sem fyrir okkur er lagt, þá verður þetta ekkert vesen," sagði línumaðurinn.

Þetta eru fyrstu alvöru leikir Geirs Sveinssonar sem þjálfari Íslands og hann er spenntur fyrir verkefninu.

„Þeir eru gríðarlega öflugir í hröðum upphlaupum, hraðri miðju og annari og þriðju bylgju. Þar gera þeir flest sín mörk," sagði Geir.

„Þeir eru með góða hornamenn og ná góðu flæði sóknarlega og hornin eru að skora mörk og svo er það línan. 65% af mörkunum koma úr þessum atriðum."

Fyrirliðinn, Guðjón Valur Sigurðsson, segir að kröfurnar séu einfaldlega að vinna þessa leiki og að spila betri handbolta.

„Kröfurnar eru þær sömu; að vinnan þennan leik og spila betur. Við þurfum að halda meiri stöðugleika og detta ekki svona mikið niður eins og við höfum verið að gera," sagði fyrirliðinn.

Innslagið úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá hér að ofan, en Henry Birgir Gunnarsson tók viðtölin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×