Innlent

Rjúpnaskyttan fannst á lífi

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Landsbjörg

Þrjátíu og fimm ára gamall karlmaður sem týndist við rjúpnaveiðar og hefur verið leitað að síðan á föstudagskvöld er fundin heill á húfi. Björgunarsveitamenn á vélsleðum fundu manninn þar sem hann var á gangi með hundi sínum á austanverðum Ketilsstaðahálsi upp úr klukkan tíu í morgun, samkvæmt tilkynningu frá Landsbjörgu.

Maðurinn var vel á sig kominn þegar hann fannst, en kaldur. Björgunarsveitamenn hlúðu að manninum á fundarstaðnum að þar til þyrla Landhelgisgæslunnar kom á staðinn og flutti manninn til byggða.

Tilkynning um að maðurinn væri týndur barst klukkan átta á föstudagskvöldið. Maðurinn gekk til rjúpa frá sumarhúsabyggðinni í landi Einarsstaða á Héraði og óskað var eftir aðstoð þegar hann skilaði sér ekki til byggða fyrir myrkur.

Hann hafði þá farið frá veiðifélögum sínum. Um 440 björgunarsveitarmenn hafa komið að leitinni og einnig hefur verið notast við þyrlu Landhelgisgæslunnar. Veður hefur verið slæmt á leitarsvæðinu og aðstæður erfiðar fyrir björgunarsveitarfólk. Þungfært var bæði fyrir ökutæki og gangandi leitarmenn. Rauði krossinn setti upp aðstöðu í grunnskólum þar sem björgunarsveitarfólk gat hvílt sig milli leitarlota.

Rjúpnaveiðitímabilinu lýkur næstkomandi sunnudag, en um er að ræða tólf daga sem skiptast á fjórar helgar.

Maðurinn fannst á þessu svæði.Vísir/Loftmyndir.is

Tengdar fréttir

Rjúpnaskyttu leitað á Austurlandi

Björgunarsveitir á Austurlandi hafa verið kallaðar út til leitar að rjúpnaskyttu sem saknað er við Einarsstaði.

Rjúpnaskyttu leitað í alla nótt

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa í alla nótt leitað manns sem gekk í gær til rjúpna austur á Héraði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×