Fótbolti

Rizzoli dæmir úrslitaleikinn á HM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rizzoli ræðir við Lionel Messi.
Rizzoli ræðir við Lionel Messi. Vísir/Getty
Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, gaf út í dag að Ítalinn Nicola Rizzoli muni dæma úrslitaleik Argentínu og Þýskalands á HM.

Leikurinn fer fram á sunnudagskvöld en Rizzoli er 42 ára gamall og hefur verið í fremstu röð dómara í Evrópu undanfarin ár. Hann dæmdi til að mynda úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu vorið 2013 en þá hafði Bayern München betur gegn Dortmund.

Rizzoli hefur dæmt í ítölsku úrvalsdeildinni síðan 2002 og verið milliríkjadómari á vegum FIFA í sjö ár.

Hann dæmdi viðureign Argentínu og Belgíu í fjórðungsúrslitum keppninnar en Marc Wilmots, landsliðsþjálfari Belga, var ekki ánægður með frammistöðu Rizzoli í leiknum.

„Ég tók eftir því að dómarinn dæmdi aldrei brot á Argentínu. En í hvert sinn sem eitthvað kom fyrir Messi dæmdi hann aukaspyrnu. Ég tók líka eftir því að Messi braut þrisvar af sér og fékk ekki áminningu. Við fengum hins vegar gult strax við fyrsta brot.“

Þess má geta að Argentína fékk tvær áminningar í leiknum en Belgía fjórar.

Rizzoli dæmdi tvo leiki í riðlakeppninni. Leik Argentínu og Nígeríu í F-riðli og viðureign Spánar og Hollands í B-riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×