Erlent

Ritstjóri Charlie Hebdo: „Ég vil frekar deyja standandi en lifa á hnjánum“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Hér sést forsíðan á nýjasta tölublaði Charlie Hebdo.
Hér sést forsíðan á nýjasta tölublaði Charlie Hebdo. Vísir/AFP
Hryðjuverkaárásin í París í gær hefur vakið mikil viðbrögð víða um heim og hafa margir notað samfélagsmiðla til að lýsa skoðun sinni á árásunum. Árásin er talin hafa verið hefndaraðgerð vegna birtingu fjölda skopmynda af Múhameð spámanni í blaðinu Charlie Hebdo, sem er vikulegt satírublað, en átta starfsmenn blaðsins féllu í árásinni í gær.

Þessi forsíða vakti mjög hörð viðbrögð. Um var að ræða sérstaka útgáfu Charlie Hebdo þar sem Múhameð spámaður var sagður gestaritstjóri. Á myndinni stendur að lesendur fái 100 svipuhögg ef þeir deyja ekki er hlátri.Charlie Hebdo
Fjölmargir skopmyndateiknarar hafa tjáð sig um málið með teikningum. Þar á meðal er Halldór Baldursson, teiknari Fréttablaðsins, sem birti í dag mynd af fjórum teiknurum og starfsmönnum Hebdo sem voru drepnir í gær. Forsíður dagblaða á Norðurlöndum, Bretlandi og Frakklandi voru líka margar hverjar undirlagðar myndum til stuðnings starfsmönnum Charlie Hebdo.

Ekki voru þó allir tilbúnir að birta myndir Charlie Hebdo. Breska blaðið Daily Mail afmáði forsíður Charlie Hebdo, með skopmyndum af Múhameð spámanni, af ljósmyndum sem birtust í gær. Sama gerði breska blaðið Telegraph og bandaríska blaðið New York Daily News. Þá sýndu sjónvarpsstöðvarnar CNN, ABC News og CBS News ekki myndir frá blaðinu í útsendingum sínum.

Hvað er Charlie Hebdo?

Charlie Hebdo er vikulegt satírutímarit sem komið hefur út í áraraðir í Frakklandi. Blaðamenn Hebdo gerðu grín að öllu; stjórnmálamönnum, viðskiptajöfrum, leiðtogum í hernum, persónum úr sögunni, trúarleiðtogum og trúarfígúrum. Myndir blaðsins hafa oftar en ekki verið umdeildar og var árásin á skrifstofur blaðsins í gær ekki sú fyrsta.

Í kjölfar árása á skrifstofu blaðsins árið 2011 var þessi forsíða birt með fyrirsögninni: „Ástin er sterkara en hatrið.“Charlie Hebdo
Charlie Hebdo var stofnað árið 1969. Nafnið vísar til teiknimyndapersónunnar Charlie Brown og fyrrverandi forseta Frakklands Charles de Gaulle. Hebdo er stytting á orðinu hebdomadaire, eða vikulega. Blaðið kom út til ársins 1982 en það var svo endurvakið árið 1992.

Þrátt fyrir að vera hluti af sterkri hefð skopmyndateikninga í frönskum fjölmiðlum og stjórnmálum var Charlie Hebdo ekki með mikla dreifingu. Um það bil 50 þúsund eintök komu út í hverri viku, samanborið við 500 þúsund eintök Le Canad Enchaîné, eins af keppinautum blaðsins.

Blaðið barðist einnig í nokkur skipti við erfiða fjárhagsstöðu og var það síðast í nóvember sem stjórnendur báðu um framlög frá lesendum til að geta haldið útgáfunni áfram.

Elskuðu að hata blaðið

Rætt var við Lilju Skaftadóttur, listaverkasala og fjárfesta, sem búsett er í París, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi þar sem hún sagði að Charlie Hebdo væri aðaltákn Frakka fyrir málfrelsi. „Það elska allir að hata Charlie Hebdo. Þeir leyfa sér að segja það sem þeir vilja, teikna það sem þeir vilja,“ sagði hún.

Charlie Hebdo gerði grín að öllum. Á þessari forsíðu er gert grín að banni við að klæðast búrku en á myndinni stendur að búrkan sé innra með konum.Charlie Hebdo
Á Vísi í gær var rætt við Gérard Lemarquis kennara sem sagði að blaðið gerði grín að öllu. „Þetta er gamalt vikublað, ádeilublað sem gerir grín að öllu og öllum. Og líka að ofstækistrú íslamista,“ sagði hann. Gérard þekki sjálfur marga starfsmenn blaðsins.

Lea Gestsdóttir Gayet, sem býr í París, sagði í samtali við Vísi í gær að tímaritið Charlie Hebdo væri eitt tveggja sem lýsi stöðu tjáningarfrelsisins í Frakklandi mjög vel og hvernig samfélag þetta sé. „Þótt maður lesi þau ekki þá finnst manni gott að þau séu til. Þetta er mjög franskt og þau gera grín að öllu, þar á meðal öllum trúarbrögðum. Þótt maður sé ekki sammála öllu sem komi fram í blaðinu finnst manni gott að þetta sé mögulegt,“ sagði hún.

Ekki fyrstu árásirnar


Árið 2006 birti Hebdo myndir Jótlandspóstsins af Múhameð spámanni. Myndbirtingin í Danmörku vakti upp hörð viðbrögð og gagnrýni. Þegar Hebdo birti myndirnar birtu þeir mynd af Múhameð á forsíðunni með textanum: „Það er erfitt að vera elskaður af fíflum.“ Blaðið hefur síðan þá birt nokkrar teikningar af Múhameð, við litla hrifningu múslíma.

Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi, hefur fengið sinn skammt af gríni á síðum Charlie Hebdo.Charlie Hebdo
Myndbirtingin varð efni lögsóknar á hendur blaðinu en þáverandi ritstjórn vann málið fyrir frönskum dómstólum á grundvelli tjáningarfrelsis og þeirri staðreynd að kirkja og ríki séu aðskilin. Með dómnum var staðfestur réttur blaðsins til að gera grín að öllum trúarbrögðum.

Í nóvember árið 2011 var gefin út sérútgáfa af blaðinu þar sem nafni þess var breytt í Charia Hebdo og gestaritstjóri sagður vera Múhameð spámaður. Á forsíðunni birtist svo mynd af Múhameð með texta þar sem hann hótaði lesendum hundrað svipuhöggum ef þeir myndu ekki deyja úr hlátri. Í kjölfarið var bensínsprengju kastað inn á skrifstofu blaðsins.

Blaðið hefur ekki síst sætt gangrýni fyrir að birta myndir að því er virðist í þeim eina tilgangi að stuða múslíma. Stéphane Charbonnier, ritstjóri blaðsins og einn þeirra sem lést í árásinni í gær, sagði í viðtölum árið 2012 ef að blaðið ætti að óttast afleiðingar allra þeirra mynda sem þá höfðu birst hefði blaðinu verið lokað fyrir löngu. „Ég vil frekar deyja standandi en lifa á hnjánum,“ sagði hann svo í samtali við franska blaðið Le Monde árið 2012.


Tengdar fréttir

Árásarmennirnir sagðir vel þjálfaðir

Sérfræðingar segja mennina þrjá sem réðust á skrifstofur háðtímaritsins Charlie Hebdo vera vel þjálfaða og að árásin hafi verið vel skipulögð.

„Allir eru í áfalli“

Lea Gestsdóttir Gayet býr í París og segist vera í sjokki vegna atburða morgunsins. Lea segir tímaritið Charlie Hebdo vera Frökkum mjög kært.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×