Skoðun

Ritmálið, talmálið og Snorri

Ari Páll Kristinsson skrifar
Tvennt stendur upp úr í umræðunni um stöðu íslenskrar tungu þessa dagana.

Annars vegar er það að fleiri og fleiri átta sig á því hve það er brýnt að þjóðtunga Íslendinga verði nothæf og notuð í heimi stafrænnar tækni – og reyndar barst sú ánægjulega frétt á degi íslenskrar tungu að stjórnvöld og fyrirtæki hygðust blása til langþráðrar sóknar á því sviði.

Hins vegar verður vart við gamalkunnar áhyggjur af því að færni í vandaðri málnotkun fari þverrandi. Þá er til dæmis átt við að fólk segi eða skrifi „víst að þú ferð ætla ég líka“ í stað „fyrst þú ferð ætla ég líka“ eða „ég er ekki að skilja þetta“ en ekki „þetta skil ég ekki“. Það er auðvitað misjafnt hvenær fólki þykir nauðsynlegt að vanda mál sitt en fæstir tala eins og upp úr bók alla daga. Í öllum rituðum tungumálum er nokkur munur á málsniði svokallaðs vandaðs ritmáls annars vegar og daglegs talaðs máls hins vegar. Meðal annars er alvanalegt í íslensku að sami málnotandi noti ýmsar erlendar slettur í tali en sneiði hjá þeim í rituðu máli.

Matið á því hvers konar málfar á við í hvaða aðstæðum breytist með tímanum, bæði í samfélaginu almennt og í huga hvers og eins. Samt sem áður er og verður öllum mikilvægt að kunna skil á vönduðu máli.

Brú úr talmáli nútímans

Segja má að á síðari hluta síðustu aldar hafi verið orðinn til býsna þéttur „staðall“ um vandaða íslensku; ritmálsstaðall. Hann er í raun brú úr talmáli nútímans yfir í samfellda ritmálið sem þjóðin á frá upphafi sínu og varðveitir okkar merkustu bókmenntir. Ég nota stundum þá myndlíkingu að ritmálsstaðallinn sé fastastjarna en síkvika talmálið sé á sporbaug í kringum þessa miðju en fari aldrei úr sambandi við hana. Ég held að við eigum ekki að hverfa frá því að kenna ungu fólki þennan ritmálsstaðal. Það má vel reyna hér eftir sem hingað til. Helstu atriðum hans er lýst í kennslubókum og orðabókum og einnig leyfi ég mér að benda á kafla mína í Handbók um íslensku þar sem einnig er rætt um þær forsendur sem að baki búa. Þá eru notadrjúgar leiðbeiningar á vef Árnastofnunar.

Auðvitað skrifum við ekki eins og Snorri Sturluson og eigum ekki að gera það þótt við getum enn komist án vandkvæða í gegnum Heimskringlu. En ef viðmiði um vandað ritmál í t.d. kennslubókum og fréttamiðlum verður breytt of mikið eða hratt gæti svo farið að við næstu aldamót hefði hinn lesandi unglingur enga brú lengur til að geta notið texta fyrri tíðar á frummálinu.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×