Skoðun

Ristilkrabbamein og skipulögð hópleit

Sunna Guðlaugsdóttir skrifar
Ristilkrabbamein (ristil- og endaþarmskrabbamein) er önnur algengasta dánarorsök af völdum krabbameina á Vesturlöndum en árlega greinast að meðaltali 135 einstaklingar hérlendis. Árlega látast að meðaltali 50 úr sjúkdómnum. Reglubundin skipulögð hópleit hefði getað bjargað mörgum þessara mannslífa. Niðurstöður rannsókna hafa sýnt að hópleit er árangursrík, bjargar mannslífum og sparar fé. Krabbameinsfélagið hefur í mörg ár sýnt þessu máli áhuga og síðan í apríl hefur höfundur unnið sem verkefnastjóri að undirbúningi skipulagðrar hópleitar ristilkrabbameins í samvinnu við landlækni og að beiðni velferðarráðuneytis.

Skipulögð hópleit er opinber forvarnaráætlun, ætluð einstaklingum í skilgreindum áhættuhópi. Þegar ristilkrabbamein á í hlut eru bæði konur og karlar í áhættu. Um 80% greinast á aldrinum 55-85 ára. Samkvæmt alþjóðlegum klínískum leiðbeiningum eru einstaklingar 50-75 ára skilgreindir í meðaláhættu að fá sjúkdóminn. Ofþyngd, kyrrseta, reykingar, rautt kjöt og áfengi eru helstu áhættuþættir. Annað sem eykur áhættu enn frekar er fjölskyldusaga um ristilkrabbamein, langvarandi bólgusjúkdómar í ristli (í átta ár eða lengur) og erfanleg heilkenni sem bera með sér miklar líkur á ristilkrabbameini, jafnvel á barnsaldri.

Markmið skipulagðrar hópleitar er að draga úr sjúkdómsbyrði og dánartíðni af völdum ristilkrabbameins með því að leita að sjúkdómnum í einkennalausum þannig að það komi þeim að gagni en skaði ekki.

Langflest ristilkrabbamein þróast úr óeðlilegum frumuvexti í slímhúð ristils (sepamyndun) þar sem sum eru eiginleg forstig. Um þriðjungur einstaklinga eldri en 50 ára eru líklegir til að vera með slíka sepa. Þeir geta verið hvar sem er í ristlinum og fara ekki af sjálfu sér en geta hins vegar þróast á mörgum árum í banvænt ristilkrabbamein. Þessi staðreynd þýðir að góður tími gefst til að finna og uppræta sepa á tiltölulega skaðlausan hátt og jafnvel bjarga frá krabbameinsmyndun. Tíðni sjúkdómsins er heldur lægri hjá konum en körlum á sama aldri.

Miðlæg leitarstöð

Í skýrslu Krabbameinsfélagsins til heilbrigðisráðherra er mælt með lýðgrundaðri skipulegri hópleit að evrópskri fyrirmynd, þar sem heilbrigðisyfirvöld bera ábyrgð á framkvæmd, kostnaði og gæðum. Miðlæg leitarstöð, rekin af fagfólki, skipuleggur og hefur yfirsýn yfir öll stig hópleitarinnar. Þessi leið ætti að tryggja jafnan rétt íbúa til þjónustunnar. Margir fagaðilar koma að hópleitinni. Leitarstöð Krabbameinsfélagsins sem hefur reynslu af hópleit gæti hýst stjórnstöð í samvinnu við Krabbameinsskrána.

Gert er ráð fyrir að einstaklingum í meðaláhættu verði boðin þátttaka þeim að kostnaðarlausu með bréfi og heimsendu sýnatökusetti til að ná hægðasýni sem ætlað er til skimunar fyrir blóði í hægðum. Leiðbeiningar fylgi með hvernig á að taka sýnið sem síðan er sent til baka á rannsóknarstofu. Niðurstaða myndi verða skráð og þaðan myndi sá sem þiggur þjónustuna fá svarbréf. Langt gengnir separ og nánast öll ristilkrabbamein á frumstigum blæða þó ekki verði alltaf tekið eftir því með berum augum. Þetta er hægt að greina með hægðaprófum. Komin eru á markað ný hægðapróf (FIT), sem mæla sértækt og með mikilli nákvæmni mannablóð í hægðum. Hægt er að nýta þau til að finna þá sem eru í brýnni þörf fyrir ristilspeglun. Unnið er að því að þessi tegund prófa komi á markað hér og hægt verði að gera slíkar mælingar hérlendis.

Árangursríkasta aðferðin síðan til að greina hvað veldur örblæðingu, ef hún reynist vera til staðar, er ristilspeglun. Skýringin gæti verið sepi eða ristilkrabbamein, en einnig bólgusjúkdómar í ristli eða gyllinæð, svo önnur dæmi séu nefnd. Með ristilspeglun er möguleiki á sýnatöku til greiningar. Separ og sum ristilkrabbamein á frumstigum er einnig mögulegt að fjarlægja í ristilspegluninni.

Mikilvægt er að átta sig á því að skimun á ekki við ef einstaklingur er kominn með einkenni ristilkrabbameins. Í þeim tilfellum þarf að leita strax læknis með greiningu og meðferð í huga. Allar blæðingar frá endaþarmi þarf að taka alvarlega og þarfnast læknisskoðunar. Kynntu þér einkenni ristilkrabbameins á ristilkrabbamein.is eða bleikaslaufan.is.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×