Körfubolti

Risinn úr Bárðardal varði sniðskot Senegalans með látum | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hinn 18 ára gamli og 214 cm hái Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmiðherji í körfubolta, átti góðan leik fyrir nýliða Þórs sem töpuðu þó, 94-82, fyrir Tindastóli í Síkinu í annarri umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í gærkvöldi.

Tryggvi skoraði ellefu stig í leiknum en hann nýtti öll skotin sín í teignum. Það er kannski eðlilegt því risinn ljúfi úr Bárðardalnum tróð flestum boltunum sem hann fékk undir körfunni með látum.

Stóri strákurinn háði mikla baráttu við Senegalann Mamadou Samb, miðherja Tindastóls, en þeir skiptust á að taka hvorn annan í gegn í virkilega skemmtilegum körfuboltaleik í Skagafirðinum í gærkvöldi.

Tryggvi varði þrjú skot í leiknum, þar af tvö frá Samb, en eitt þeirra varði hann með miklum stæl. Senegalinn, sem eitt sinn var á mála hjá Barcelona, ætlaði að setja sniðskot ofan í körfuna en Tryggvi Snær var ekki alveg á sama máli.

Þetta glæsilega varða skot má sjá í spilaranum hér að ofan en farið verður yfir öll tilþrif Tryggva Snæs, leikinn í Síkinu sem og allt sem gerðist í annarri umferð deildarinnar í Dominos-Körfuboltakvöldi sem hefst klukkan 22.00 á Stöð 2 Sport HD í kvöld.

Sjónvarpsleikur kvöldsins er viðureign Keflavíkur og Þórs Þorlákshafnar en útsending frá honum hefst á Stöð 2 Sport HD klukkan 19.45.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×